Þakklæti
Nú þegar undirritaður hefur komið að Landsamtökunum Geðhjálp í nærri 30 ár, setið í stjórn í sjö ár og sinnt formennskuhlutverki í þrjú ár er komið að því að stíga til hliðar. Nýr formaður verður kosinn á aðalfundi samtakanna 30. mars nk. en frá með deginum í dag og þangað til leiðir varaformaður samtökin.
Landsamtökin Geðhjálp standa vel. Okkur hefur auðnast að fá til liðs við okkur um 7400 mánaðarlega styrktarfélaga sem við erum afar þakklát fyrir. Styrktaraðila sem gera samtökunum kleift að vaxa og dafna og draga úr þörf fyrir opinberan stuðning.
Nýlega stefnu Geðhjálpar höfum við nýtt sem kjölfestu í aðgerðum og samskiptum við íslenskt samfélag. Unnið markvisst út frá hlutverki samtakanna um að rækta geðheilsuÍslendinga innan þriggja flokka stefnunnar, stöðugrar framsækni, öflugrar geðræktar og tryggðra mannréttinda.
Við höfum sem samtök styrkst og á sama tíma höfum við búið við þá gæfu að styrkja aðra. Ég tel ríkan vilja innan núverandi stjórnar að halda áfram að gera öðrum kleift að blómstra. Á aðalfundi samtakanna, 8. maí 2021 stofnuðu samtökin „Styrktarsjóð geðheilbrigðis“ (gedsjodur.is) með það fyrir augum að styrkja sprota og framfarahugmyndir innan geðheilbrigðismála. Sjóðurinn er sjálfstæður með sér stjórn og fagráð og er ásetningur stjórnar samtakanna að halda áfram að styrkja sjóðinn þannig að úr honum verði sterkt „farartæki“ til framfara í geðheilbrigðismálum.
Við höfum meðvitað viljað hafa áhrif á geðheilbrigðiskerfið út frá forsendum notenda og aðstandenda og um það höfum við verið opin til samstarfs í gegnum verkfæri almannaþjónustunnar, s.s. geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaáætlun. Einnig í gegnum umbætur í mannréttindamálum, endurskoðun viðhorfs til nauðungar og almennt út frá því viðhorfi að snúa við þeirri viðteknu viðleitni að geðheilbrigðisþjónustan mótist í auknu mæli á forsendum þjónustuveitenda en ekki þjónustunotenda.
Um leið og ég þakka stjórn og starfsfólki Geðhjálpar kærlega fyrir samstarfið vil ég sértaklega þakka öllum þeim fjölmörgu styrktaraðilum sem hafa stutt okkur í orði og verki. Þakka ykkur innilega fyrir að vera með okkur á þessari mikilvægu vegferð. Án ykkur eigum við erfitt með að hreyfa við málaflokknum.
Það er von mín að landsmenn veiti Geðhjálp áfram þann styrk sem þeir hafa gert af samhygð undanfarin ár. Það er fyrir samstöðu ykkar sem við stöndum sterk og horfum bjartsýn fram á veginn.
Með þakklæti,
Héðinn Unnsteinsson.
VON
Í dag taka um 61.000 manns lyf við þunglyndi. Um 24.000 manns búa við örorku eða eru í endurhæfingu og þar af um 10.000 af völdum lyndisraskana. Geðheilsa (andleg líðan) ungmenna (8.-10. bekkur) hefur samkvæmt gögnum Rannsókna og greininga (R&G) ekki verið verri þau ár sem R&G hafa framkvæmt þær kannanir. Litlar framfarir hafa orðið í meðferð við lyndisröskunum undanfarin 30 ár. Opinber geðheilbrigðisþjónusta hefur, að mati undirritaðs, ekki verið eins mikið í umræðunni og nú en iðulega leiða orð eins og biðlistar og óþreyja eftir betri þjónustu þá orðræðu.
Landssamtökin Geðhjálp hefur á síðustu misserum m.a. einbeitt orku sinni að benda á þá gjá sem er á milli þess opinbera fjármagns sem fer til þjónustunnar og ætlað umfangs hennar. Að okkar mati er það nær fimmfalt, m.ö.o. að u.þ.b. 5% af þeim 320 milljörðum króna sem renna til heilbrigðismála fara til geðheilbrigðismála á meðan áætlað umfang innan þjónustunnar er 25%. Það er því ekki nema vona að notendur þjónustunnar, aðstandendur þeirra og almenningur fyllist varkárri von þegar eitthvað „nýtt“ birtist á sjóndeildarhringnum.
Það var á stjórnarfundi Geðhjálpar 16. október 2019 að undirritaður lagði til að fá til landsins Dr. Robert Carhart Harris frá Imperial College of London til að ræða rannsóknir á lækningargildi sílósíbíns. Stjórn fól í kjölfarið framkvæmdastjóra að vinna málið áfram. Það tók alls þrjá stjórnarfundi að vinna málinu framgöngu. Stjórnarmenn voru hikandi þar sem efnið var á lista yfir bönnuð efni. Þó varð úr að af ráðstefnunni Liggur svarið í náttúrunni varð 22. október árið 2020 og tók Dr. Carhart Harris tók þátt. Þetta var á Covid tímum og var ráðstefnunni streymt og er upptöku af henni að finna hér: https://gedhjalp.is/liggur-svarid-i-natturunni/?fbclid=IwAR0AJzNBTIiWq4AUtBtPB_my4s-9gu3gAO0Spfe6SRSBap0ZPLW_zgCgNk4
Ráðstefnan tókst vel en auk Dr. Carhart Harris tóku þátt í henni íslenskir læknar, sálfræðingur og stjórnmálamaður auk þeirra sem deildu reynslu sinni. Í kjölfarið tók undirritaður ásamt öðrum stjórnarmanni félagsins frumkvæði á eigin vegum að ná tengslum við breska fyrirtækið Compass Pathways sem sinnti rannsóknum á sílósíbíni beggja vegna Atlantsála. Sú tenging tókst og 17. september 2021 komu frumkvöðull og forstjóri þess George Goldsmith sálfræðingur, lækningastjóri Guy Goodwin geðlæknir og starfsmannastjóri Alice Gaillard til landsins í heimsókn. Heimsóknin var alfarið einkaframtak tveggja einstaklinga. Þau funduðu með Lyfjastofnun, áhugasömum haghöfum s.s. formanni geðlæknafélagsins og sálfræðingafélagsins, forstöðufólki innan geðheilbrigðisþjónustu Heilsugæslunnar og Landspítalans og forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar. Þau heimsóttu í lok þessa dags forseta Íslands og forsetafrú.
Marmið okkar var að stuðla að því að Ísland gæti bæst við þau lönd sem voru þátttakendur í þriðja fasa tilrauna fyrirtækisins með sílósíbíns í lækningarskyni við þrálátu þunglyndi (e. treatment resistant depression). Samtal hófst í kjölfarið milli yfirlæknis á geðsviði Landspítala og fyrirtækisins sem endaði með því að ekki varð af samstarfi sökum ástæðna sem ekki verða raktar hér.
Nú í upphafi árs 2023 m.a. eftir ágæta alþjóðlega ráðstefnu um notkun sílósíbíns og annarra hugvíkkandi efna í lækningaskyni sem haldin var af frumkvæði Söru Maríu Júlíudóttur í Hörpu, hefur umræðan um efnin og mögulegt lækninggildi þeirra tekið stakkaskiptum. Ekki einungis hefur hún magnast hér á landi heldur einnig beggja vegna Atlantshafsins. Margir eru á því að þessi þriðja tilraun hins vestræna heims að tileinka sér eiginleika þessara efna muni takast. Tilraun sem hófst árið 1999 með frumkvæði sálfræðingsins Roland Griffiths próffesors við John Hopkins háskóla sem fékk undanþágu Bandaríska Lyfjaeftirlitsins til þess að nota sílósíbíns í tilraunum við meðferð krabbameinssjúklinga.
Er ég gekk út af ofan nefndri ráðstefnu bærðust ólíkar tilfinningar í brjósti. Annars vegar von en hins vegar hljómuðu orð séra Friðriks, sem íþróttafélagið Valur hefur gert af sínum einkunnarorðum í huga: „látið ekki kappið bera fegurðina ofurliði.“ Það er mikilvægt að halda góðu og yfirveguðu jafnvægi á milli þessara þátta. Landssamtökin Geðhjálp hafa frá árinu 2019 tekið frumkvæði í umræðunni um mögulega notkun hugvíkkandi efna í geðheilbrigðisþjónustu. Okkur þykir það mikilvægt þar sem við störfum á fjölbreyttum vettvangi og hlutverk okkar er að rækta geðheilsu Íslendinga og eitt af áherslusviðum okkar er framsækni.
Hvað framtíðin leiðir í ljós í þessum efnum er óljóst. Þó verður það að teljast líklegra en hitt að umrædd efni finni sér farveg inn í geðheilbrigðiskerfi okkar á allra næstu árum. Byggi ég þá afstöðu ekki síst á stöðu rannsókna, ekki bara á sílósíbíns heldur einnig MDMA sem er lengst komið í klínískum rannsóknum. Hvað sem verður er eðlilegt að halda í „varkára von“, því það eru nú einu sinni svo að ef einhver tilfinning getur yfirbugað þann ótta sem gegnumsýrir vestræn samfélög þá er það von.
Nærvera
Við lifum áhugaverða tíma. Tvær þversagnir í geðheilbrigðismálum blasa við. Önnur er sú að á sama tíma og við lofum fjölbreytileika fólks í samfélaginu, og þar með samfélagsins, þá virðumst við hafa afar ríka þörf fyrir að steypa fólk í, og skilgreina það út frá, tilteknum römmum.
Hin þversögnin er sú að á sama tíma og við teljum okkur búa við almenna framþróun í heilbrigðis- og læknavísindum er kemur að viðleitni til bættrar geðheilsu, fjölgar örorkubótaþegum vegna geðraskana sex sinnum hraðar en þjóðinni, eða um 240% sl. 30 ár á meðan þjóðinni fjölgaði á sama tíma um ríflega 40%.
Síðastliðið vor samþykkti Alþingi Íslendinga nýja stefnu í geðheilbrigðismálum og í sumar hafa tveir hópar á vegum heilbrigðisráðherra útfært aðgerðaáætlun til fjögurra ára í málaflokknum. Hún er metin er á u.þ.b. 6-8 ma. kr. í framkvæmd. Við í Geðhjálp munum vel eftir síðustu aðgerðaáætlun, áætlun áranna 2016-2020. Áætlun sem var metnaðarfull en lítill hluti nauðsynlegs fjármagns fékkst til að fylgja henni eftir. Að okkar mati þýðir lítt að eyða orku og tíma í áætlanir ef „eldsneytið“ er lítið sem ekkert. Tölurnar 5/25 vísa til ójafns hlutfalls opinberra fjárframlaga til geðheilbrigðismála sé horft til áætlaðs umfangs málaflokksins innan heilbrigðiskerfisins, 5/25. Í ljósi þessa og aukinnar umræðu og ákalla um úrbætur treystum við opinberum valdhöfum fyrir því að ný aðgerðaáætlun verði fullfjármögnuð til næstu fjögurra ára.
Nýlega birtist í breska blaðinu „The Guardian“ grein eftir Dr. Sanah Ahsan ungan sálfræðing sem starfar innan bresku heilbrigðisþjónustunnar NHS. Yfirskrift greinarinnar var: „Ég er sálfræðingur og ég trúi því að það sem okkur hefur verið sagt um geðheilbrigði séu mikil ósannindi“. Í undirfyrirsögn greinarinnar segir svo: „Skilningur samfélags okkar er sá að orsakir geðraskana séu innra með okkur – en hundsar samfélagslega orsakaþætti“. Sanah segir að við séum að takast á við samfélagslegan og pólitískan vanda ójöfnuðar með greiningum og meðferð. Hún spyr hvort sex skipti af hugrænni atferlismeðferð sem hjálpar að koma auga á óuppbyggileg hugsanamynstur muni hjálpa einstakling sem á í erfiðleikum með að sjá fjölskyldu sinni fyrir mat. Á sömu forsendum, hvort þunglyndislyf geti „læknað“ stöðugt áfall sem hörundsdökkur maður verður fyrir á „eitruðum“ vinnustað, eða hvort gjörhygli geti orðið barni að liði sem býr við mikla fátækt?
Sanah klikkir svo út með myndlíkingu og spyr hvort við myndum greina visnandi plöntu með „plöntu-visnunar-heilkenni“ – eða reyna breyta umhverfi plöntunnar og aðstæðum? „Engu að síður þjáist fólk í og við aðstæður sem eru ekki boðlegar og okkur er sagt að það sé eitthvað að okkur“, segir hún.
Grein Sanah, rannsóknir prófessor Joanna Moncrieff, sem kollvörpuðu hugmyndum um efnafræðilegt ójafnvægi í heila þegar um þunglyndi er að ræða, auk „endurreisnartímabils“ hugvíkkandi efna sem virðist vera hafið, eru einungis fáein dæmi um það hversu nauðsynlegt er orðið að endurskoða aðferða- og hugmyndafræði okkar í geðheilbrigðismálum. Endalaus sjúkdómsvæðing meintra raskana á þarf að snúa við. Við þurfum að horfa vandlega á samfélög okkar sem eru lituð af samanburði, samkeppni og einstaklingshyggju og nærast á aldagamalli meinloku um að staða einstaklings í samfélagi ráðist nær eingöngu út frá efnislegu „virði“.
En þetta er gamalt stef sem kapítalisminn hefur löngu kveðið í kútinn, ekki satt? Meira er jú betra og við ættum ekki einungis að huga að því að sinna þörfum okkar heldur gefa löngunum okkar einnig góðan tíma og leitast við að elta þann endalausa hring, því meira verður jú aldrei nóg. Hvað þarf til að gera samfélög okkar geðheilsuvænni? Hvað þarf til að við séum sátt? Hvernig getum við rofið þær neikvæðu tilfinningar sem við færum á milli kynslóða okkar, þá skömm sem oft flyst og fleytir kellingar öldum saman innan fjölskyldna?
Við sitjum enn við eldinn, viljum hlusta á sögur, tengjast öðrum, upplifa nánd og forðast rof. Við virðumst þó vera fjarlægari, fjarverur, en við viljum vera nær, vera nærverur – mannverur. Einkennir „aðskilnaðarorðræðan“ tíðarandann? Rafmagnið og tæknin hafi valdið ákveðnu rofi um leið og þau hafa bætt, lengt og breytt tilveru okkar, aukið lífsgæði – eða hvað?
Við sitjum við eldinn, eldurinn logar í húsi hvers og eins, í síma hvers og eins, langt á milli okkar. Erum við að skilja okkur í auknu mæli frá hvort öðru af því að við setjum eigin mannréttindi ofar hinni sameiginlegu mennsku? Flestir eru sammála um að samfélög okkar taki á svo margan hátt framförum. Við endurskoðum viðhorf okkar, reynum að breyta stöðnuðum hugmyndum og afstöðu sem byggir oft á hugtökum eins og valdi. Valdi sem við nú, í opinberum skilningi, erum flest sammála um að „breyta“ í þjónustu þar sem við getum. Að allt opinbert vald verði opinber þjónusta. Getum við breytt orðræðunni fyrst og vonast svo til að afstaða okkar til þekkingarfræðilegs skilnings á tungumálinu og upplifun breytist hægt og bítandi?
Það er víst, samkvæmt fræðunum, eitt sem er ótta yfirsterkara. Von. Við þurfum von. Tíðarandi okkar virðist um of litast af sundrungu, fjarveru og rofi. Við þurfum aukna nánd á tímum þar sem aldrei virðist vera erfiðara að veita hana, upplifa hana í fjarverunni. Við þurfum eldinn – aukin tengsl við náttúruna, aukin tengsl við okkar innri veru, okkar eigin nærveru.
Samhljómur hamingjunnar
Allt er tíðni. Öll orka er tíðni og allt efni er tíðni. Við manneskjurnar erum þar engin undantekning. Við erum gangandi tíðni í eilífri leit að „réttum“ takti, þeim takti sem veitir okkur hámarks vellíðan hverju sinni. Liggur okkar eðlislæga tíðni og taktur ef til vill í flæði nátttúrunnar? Við erum jú hluti af þessari endalausu hreyfingu þar sem allt fram streymir endalaust; flóði og fjöru, tunglgangi, snúningi pláneta um sólu.
Við höfum lengst af verið í nánum tengslum við náttúruna. Hún færir okkur ró, styrk, kraft, frið, sátt, breytileika og jafnvægi. Hún hefur mikilvægan heilunarmátt sem fylgt hefur kynslóðunum í gegnum aldirnar. Náttúran er síbreytileg en alltaf full af styrk og krafti. Hún er alltaf til staðar, hvar sem við búum. Það er því auðvelt fyrir okkur flest að nýta hana betur til sjálfsstyrkingar, vera hluti af stærri veröld. Vera hluti af henni.
Það er engu að síður ljóst að tengsl okkar við náttúruna hafa breyst hratt undanfarna áratugi. Tækni og framþróun skilnings hafa breikkað bilið og breytt nánd okkar við hana. Við virðum ekki alltaf náttúruna, okkur finnast á stundum gjafir hennar sjálfsagðar og jafnvel ofnýtum þær, til ætlaðs framdráttar. Við höfum færst frá því að vera hluti af náttúrunni í átt að því að vilja stjórna henni og ráða. Allt þetta framferði okkar byggjum við á mjög svo takmarkaðri skynjun á náttúrunni. Takmarkaðri skynjun fimm skynfæra á þrívíðum heimi þar sem við með sandkornum, síðar úrskífum og tölvuskjám höfum umfaðmað fjórðu víddina, tímann, og með því gert hann að herra.
Höfum við skilið okkur um of frá náttúrunni með aukinni tækniþróun og eftirsókn eftir „lífsgæðum“? Lítum við í auknum mæli svo á að við séum ekki hluti af náttúrunni og nærandi tíðni hennar og takti? Hvernig upplifir yngsta kynslóðin sem alin er upp við tilbúna rafsegultíðni „tækniframfara“ náttúruna og tengsl sín við hana? Ef marka má rannsóknir, hafa börn aldrei verið jafn kvíðin og nú. Almennt hefur tíðni geðraskana og aukin örorka af þeirra völdum aukist umtalsvert og samhliða hefur geðlyfjanotkun aukist mikið.
Það er óumdeilt að umhverfi okkar og erfðir hafa áhrif á líðan okkar. Góð geðheilsa birtist í samhljómi tíðnisviðs okkar og lífstakts og góð geðheilsa er undirstaða lífsgæða og lífsánægju. Geðheilsa er ekki aðeins það að vera laus við geðraskanir heldur það að búa við tíðni og takt sem hámarkar vellíðan og gerir okkur kleift að nýta hæfileika okkar til fulls. Gerir okkur kleift að takast farsællega á við verkefni daglegs lífs og eiga uppbyggileg og ánægjuleg samskipti við fólkið og náttúruna í kringum okkur.
Ýmislegt bendir til þess að við skynjum aðeins hluta af nærandi tíðni náttúrunnar og nú á tímum, þegar nærumhverfi okkar er í ríkum mæli litað af ónáttúrulegri tíðni, er fátt skynsamlegra en að leita aftur til upphafsins, til náttúrunnar.
Finndu þína staði í náttúrunni, bæði þá sem stutt er að sækja og þá sem krefjast lengra ferðalags. Ef þú kemst ekki út í náttúruna eins reglulega og þú vildir, taktu hana þá heim til þín (útsýnið úr stofunni, kvikmyndir, steinar í glugga, tónlist og svo framvegis). Njóttu og hvíldu í hverri árstíð. Semdu frið við veturinn, snjóinn, myrkrið, rigninguna og hálkuna. Finndu heilunarmáttinn í kliðandi læk, regni á rúðu, fuglasöng í tré og allri þeirri tíðni sem er okkur eðlislæg. Allri þeirri tíðni sem við erum hluti af.
Þar liggur samhljómur hamingjunnar.
Greinin birtist fyrst í Ársriti Landverndar 20. maí 2022.
Er heimurinn afstaða okkar til hans?
Maðurinn er drifinn áfram af rafmagni – heilinn, hjartað ganga hvoru tveggja fyrir sakir rafmagns – það er spenna í okkur – straumur – tíðni – orka eða á rafmáli; kílóvött. Við fæðumst inn í heiminn – nær oftast afsprengi kærleiks og boðspennu, samruna rafmagns. Svo göngum við jörðina – bindum okkur við hana, yrkjum hana, á meðan himinn hvílir yfir okkur og alheimurinn snýst um sjálfan sig og við með – við erum misstöðugur leiðari milli himins og jarðar. Leiðum og erum leidd áfram eftir því hvernig rafstraumur lífsins í höfði og hjarta efnisgerist og virkjar boðefnin – veldur raski – örvar líf – heldur okkur gangandi.
Í heilum okkar er áætlað að séu á bilinu 84-100 milljarðar taugafrumna – samansettar úr griplum, taugabol og taugasíma – miðlandi – leiðandi – boðandi á taugamótum. Hver taugafruma býður svo upp á allt að 15.000 tengingar- og móttökumöguleika – flókið þrívítt net tenginga. Í því neti býr öll okkar upplifun, vera og afstaða til heimsins – í gegnum til að mynda skynjun, hugsun, ímyndun, sköpun, hugmyndir og aðlögun okkar að lífinu og hvert öðru. Óteljandi mynstur, stjarnfræðilega margir möguleikar.
Allt er nýtt á einhverjum tíma og getur orðið nýtt aftur – allt er mögulegt – allt má endurskilgreina, endurmeta, meira að segja geðheilbrigði og geðheilbrigðiskerfið. Geðheilbrigði okkar er nefnilega svolítið eins og algeimurinn – óendilega vítt, huglægt og nærri óskiljanlegt – sérstaklega þegar notast þarf við sjálft grunn „kerfið“, heilann til að skilja það. Heilinn er svo flókinn, en samt svo einfaldur, þarf í vöku alltaf að hafa eitthvað að hugsa um, getur bara hugsað um eitt í einu og það sem hann hugsar um vex. Lyndissveiflur eru upp að vissu marki eðlilegar – lífið stöðug sveifla frá vanlíðan að vellíðan og öfugt og oft er líðanin best á „miðsvæðinu“.
Vanlíðan er fylgifiskur tilverunnar. En hvar liggja mörkin milli vanlíðanar og of mikillar vanlíðanar, milli vellíðanar og of mikillar vellíðanar? Hvar hefjast klínísk frávik? Hvar er línan? Hversu öðruvísi þarf öðruvísi að vera til að vera öðruvísi? Hver eru þessi hvörf? Hverfumst við ekki öll? – Þung lund og erfitt sinni yfir vetursins dimmu skuggastundir og svo stjórnlítil tengslahugsun að vori og yfir sumarið. En það marka- og stjórnleysi hugans og hugsanna sem getur leitt til annarrar afstöðu til veruleikans en flestra er engu að síður raunverulegt.
En saga frávika, saga meintra raskana á rafstraumi, geðraskanna hefur í orðræðunni farið frá tunglsýki, að geðveiki, geðsjúkdómi, geðröskun og nú síðast geðrænni áskorun eða jafnvel andlegri vanlíðan – hefur víkkað ört á síðustu 150 árum samhliða örri abnormaliseringu normsins. Frá sex frávikum árið 1883 í tæplega 600 í dag samkvæmt DSM5-greiningarkerfinu.
Árið 1950 var það mat stjórnvalda í Bretlandi að 1% íbúa Lundúna byggju við geðröskun, það hlutfall er í dag, 71 ári síðar, áætlað 20%. Getur það verið? Er slík þróun trúverðug? Viðleitni fræðasamfélagsins og fagfólks til að skilja og hjálpa er einskær en vanmátturinn oft alger og tilraunir til aðstoðar of oft háðar hendingum. Ekki má gleyma hagsmunum til að mynda lyfjafyrirtækja, en áætluð ársvelta geðlyfjaiðnaðarins er um 100.000 ma. íslenskra króna. En hvað hefur gerst á síðustu tveimur áratugum: sjúkdómum hefur fjölgað, sjúklingum hefur fjölgað, sjúklingar eru að greinast yngri, tíðni alvarlegra sjúkdóma aukist, innlagnir á spítala aukast – en styttast, lyfjakostnaður hefur margfaldast og geðheilbrigðiskerfið dýrara í rekstri.
Í blaðinu eru áhugaverð viðtöl um mögulega framtíð vitundarvíkkandi efna í geðlæknisfræði við Dr. George Goldsmith, stofnanda og forstjóra Compass Pathways, og Söru Maríu Júlíudóttur, frumkvöðul og nemanda í meðferð með notkun efnanna. Einnig fer Bergþór Grétar Böðvarsson, frumkvöðull og baráttumaður, yfir sögu sína, en hann hefur barist fyrir rétti og bættri meðferð fólks með geðrænar áskoranir í meira en 30 ár.
Árið 1999 tók samfélagið sig saman og ýtti verkefninu Geðrækt úr vör. Þá sögðum við: „Geðheilsa varðar alla. Geðraskanir eru algengar og hafa víðtæk áhrif, tilfinningaleg, samfélagsleg og fjárhagsleg. Geðraskanir er hægt að fyrirbyggja eða draga úr alvarleika þeirra og áhrifum. Til þess þarf geðrækt; að hlúa að geðheilsu og efla hana.“ Þegar litið er á þessa viðleitni nú er ljóst að flestir eru sammála um að okkur sem samfélagi hefur tekist að auka fræðslu og þekkingu á geðröskunum. Að einhverju leyti einnig á orsakaþáttum og vitund um geðheilbrigði.
Tölur um tíðni geðraskana og aukna örorku af þeirra völdum síðustu tuttugu ár benda til mikillar aukningar, samhliða hefur geðlyfjanotkun einnig aukist mikið. Aukning á örorku vegna geðraskanna síðastliðin 30 ár er nærri 250% á sama tíma hefur þjóðinni fjölgað um 43%. Það er mér til efs að okkur hafi tekist að draga úr áhrifum geðraskana á einstaklinga, fjölskyldur eða samfélagið í heild. Mat Landlæknisembættisins á andlegri líðan frá
2007 til 2020 sýnir að henni hefur hrakað mikið fremur en hitt.
„Vanlíðan er fylgifiskur tilverunnar. En hvar liggja mörkin milli vanlíðanar og of mikillar vanlíðanar, milli vellíðanar og of mikillar vellíðanar? Hvar hefjast klínísk frávik? Hvar er línan? Hversu öðruvísi þarf öðruvísi að vera til að vera öðruvísi? Hver eru þessi hvörf? Hverfumst við ekki öll?“
Við vitum ekki nóg um fordóma og mismunun til þess að meta hvort eitthvað hefur áunnist þar. Í hugum margra er alltaf gott að geta staðsett og skilgreint aðila út frá veikasta punkti þeirra – utan hringsins og þannig átt möguleika að mismuna í orði og gjörð er kemur að tengslum, æru, framgangi, virðingu og tilverunni almennt. Tölur um þá fjármuni sem renna af hálfu almannaþjónustunnar til geðheilbrigðismála af þeirri heild sem renna til heilbrigðismála endurspegla heldur ekki umfang geðheilbrigðismála. Áætlað er að umfang málaflokksins sé 30% af heilbrigðismálum en fjárveitingar áætlaðar um 12% af heild. Í ljósi þessa er eðlilegt að álykta að viðleitni okkar til að rækta geðheilsu og vinna með orsakaþætti geðheilbrigðis sé góðra gjalda verð en svo virðist sem okkur verði ekki nægilega ágengt. Við syndum á móti stríðum straumi og ber frekar niður ána en upp.
Eftir að hafa fylgst með fyrrnefndri þróun greiningarkerfisins undanfarin ár er ekki óeðlilegt að álykta að við sem samfélög ættum að staldra við. Geðlæknar og aðrir sérfræðingar, svo sem sérstakur talsmaður Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi, hafa velt því fyrir sér hvort greiningarkerfið sé komið of langt, of nærri hverfandi normi, frávikin orðin of mörg og hugmyndafræðinni um að greina raskanir en ekki styrkleika þurfi að snúa við hægt og rólega.
Leggja aukna áherslu á styrkleika manneskjunnar á tímum þegar mennskan virðist eiga undir högg að sækja í samskiptum sínum við hvor aðra í gegnum gervigreindarsniðinn veruleika samfélagsmiðla. Velta því fyrir sér hvort of mikið vald liggi í kerfinu þegar ýmis önnur almannaþjónusta til að mynda í skólum og víðar tekur mið af því. Hvort skilgreiningarnar og „merkimiðarnir“ fylgi manneskjum sem búa oft við tímabundna röskun alla tíð. Fólk er og verður aldrei geðröskun eða sjúkdómur, eins og mörgum til dæmis í fjölmiðlum er tamt að segja þegar geðraskanir eiga í hlut.
Það er því eðlilegt að við sem þjóð lítum nú til ákveðinnar „afsjúkdómavæðingar“, að minnsta kosti „afeinkennavæðingar“. Við megum ekki verða raskanir – megum ekki leyfa orðræðu þeirrar narratívu að ráða. Geðheilbrigði allra kemur fyrst. Við erum ekki kvef, þótt við fáum kvef. (Og kvef er ekki hættulegt).
Samfélag okkar stendur frammi fyrir áskorun. Ljóst er að fé til almannaþjónustu ríkis og sveitarfélaga verður af skornum skammti næstu misserin en allar líkur eru á að þörfin fyrir þjónustuna aukist, biðlistar lengist enn. Nú er mikilvægt að huga bæði að sókn og vörn. Sókn í þeirri merkingu að vinna með orsakaþætti og vörn í þeirri merkingu að bæta viðbragðskerfi okkar. Til verksins höfum við hugmyndafræði þar sem raskanir frá heild, frávikin, fá meira vægi og athygli en sú heild (heilbrigði) sem röskunin, frávikið, er dregið af.
Út frá þessari hugmynd og þeim gríðarlegu fjármunum sem liggja í röskunum hafa kerfi okkar þróast. Umræða um þessa þróun – hvort sem við breytum eða ekki – er að mínu mati afar brýn. Við þurfum að vera opin fyrir hugmyndum um framþróun og breytingar. Hvort sem þær hugmyndir snúast um mögulega notkun efna sem um skeið hafa verið utan ramma þess löglega, skjólshús, opnar deildir, umbyltingu á þjónustunni eða það hvernig við bætum tengsl okkar innan samfélagsins, sem eru ein mikilvægasta undirstaða geðheilsu.
Við þurfum að synda á móti straumi og hefja viðsnúninginn frá því að spyrja fólk hvað sé að því og spyrja frekar hvað hafi komið fyrir þau. Einnig ættum við sem allra fyrst að eiga samtal á sameiginlegum vettvangi. Fagfólk, notendur, aðstandendur og fleiri um geðheilsu, geðraskanir, skilgreiningar og almennt þá vegferð sem við erum á. Samtal á sameiginlegum vettvangi Geðráðs.
Öll erum við hluti af sameiginlegu, guðlegu, dreifikerfi rafmagns, boðspennu lífsins. Leiðir aðgreiningar innan þess hafa þróast yfir árhundruð. Er ekki kominn tími til að slaka aðeins á hugsun, orðum og skilgreiningum aðgreiningar? Því þó að heimurinn sé í okkar hugum afstaða okkar til hans getum við minnt okkur á að raunveruleg tengsl, sameiginleg mennska og sameiginleg afstaða okkar getur skilað okkur nær heimi sem nærist minna á aðgreiningum.
Greinin birtist 8. október 2021 í Geðhjálparblaðinu
Héðinn Unnsteinsson er formaður Geðhjálpar og stefnumótasérfræðingur hjá forsætisráðuneytinu. Í þættinum talar Héðinn um Vertu úlfur (leiksýningu og bók), aðskilnað í samfélaginu, egóið sem truflar okkur, að gefast upp, skipta um skáp í sundlauginni, vendipunktinn þegar hann fór í oflæti í fyrsta skipti og margt margt fleira.
Hagfræði hamingjunnar frá 2003
Hvert er samband hamingju og efna? Er velmegun dragbítur á hamingju? Héðinn Unnsteinsson sótti ráðstefnu um hagfræði hamingjunnar í Mílanó og komst að því að þjóðarframleiðslan getur aukist án þess að hamingjan fylgi með.
Þar sem ég sit á kaffiteríu stúdentanna hér í Háskólanum í Mílanó-Bicocca velti ég því fyrir mér hvort þeir séu hamingjusamir. Hvort stig huglægrar vellíðunar (subjective well-being) þeirra sé viðunandi og hvort þeir hafi verið upplýstir um muninn á neysluvarningi (consumption goods) og "samskiptavarningi" (interaction goods). En þetta eru aðeins nokkur þeirra hugtaka sem hafa skotið upp kollinum á alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin er hér í skólanum um þversögn hamingjunnar í hagfræðilegum skilningi.
Hér eru samankomnir 200 manns til að ræða þversögnina. Margir þeirra þekktir fræðimenn í sínu fagi. Þeirra á meðal Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði árið 2002 sálfræðingurinn Daniel Khaneman. Einnig prófessor Richard Easterlin sólbrúnn frá Háskóla Suður-Kaliforníu, Lord Richard Layard frá London School of Economics, Ruut Veenhoven prófessor í hamingjufræðum frá Hollandi og margir fleiri fræðimenn sligaðir af þekkingu. Þversögnin sem um ræðir er sú að þrátt fyrir nokkuð stöðugan vöxt á vergri þjóðarframleiðslu í hinum vestræna heimi eftir iðnbyltinguna hefur hamingja eða huglæg vellíðan ekki fylgt. Erum við að fara villur vega í vellíðunar- og hamingjuviðleitni okkar? Hefði Adam Smith ekki skrifað um hamingju þjóðanna frekar en auðlegð ef hann væri uppi í dag? Hvernig stendur á því að ánægja okkar og fullnægja með lífið eykst ekki í sama hlutfalli og þjóðarauður? Hvað er að þegar ekkert er að, en samt er ekki allt í lagi?
Veðrið í Mílanó er gott, sólskin og hitinn um 20ºC. Það er ekki hægt annað en að vera hamingjusamur í svona veðri, eða hvað? Eru allar mínar þarfir uppfylltar? Einhverjar langanir e.t.v. kraumandi undir sakir ögrandi markaðsafla? Líður mér ekki vel? Jú, hér er gott að vera, ég tala nú ekki um í kringum allt þetta fræðifólk sem hefur kafað svo djúpt niður í hafsjó lífsins fræða, og í dag er hamingjan á dagskrá. Ráðstefnuna opnaði Luagi Pasinatti sem er "öldungur economus". Hann kom aðeins of seint í þetta ítalska hringleikahús sem salarkynnin eru. Byrjaði á að kynna að höfuð Evrópusambandsins, Romanio Prodi, kæmist ekki en skilaði "hamingju"óskum frá honum. Pasinatti velti þversögninni um hamingjuna út frá sjónarhorni sögunnar og varð honum tíðrætt um Adam Smith og hversu mikið Smith hefði einblínt á efnisleg gæði en tvinnaði inn í það þann innkomuþröskuld sem virtist vera til staðar í hagfræðum hamingjunnar. Þröskuldurinn er sá að eftir að ákveðinni velmegun er náð flest hamingjukúrfan út á meðan þjóðarframleiðslan eykst áfram. Richard Easterlin útskýrði þröskuldinn enn betur um leið og hann með sínum vesturstrandarhreim kafaði með áheyrendur enn dýpra (misdjúpt þó) í skilgreiningar og mælingar á hamingju. Easterlin gerði þó ekki nógu vel grein fyrir muninum á vellíðan og hamingju. Hann blandaði saman fræðileitum sálfræðinnar, félagsfræðinnar og hagfræðinnar listavel er hann útskýrði hvernig sálfræðin nálgaðist hamingjuna með svokallaðri "set point" aðferð. Með "set point"-aðferð átti hann við að hver einstaklingur hefði sinn eigin "hamingju"þröskuld og því væri í eðli sínu óraunhæft að nálgast velferð allra út frá staðlaðri almennri stefnumótun. Easterlin dró þó skýra línu milli hlutlægrar nálgunar hagfræðinnar og huglægrar nálgunar sálfræðinnar.
Því næst dró hann skýr tengsl milli heilsufars og hamingju. Með auknum heilsufarsvandræðum minnkar huglæg vellíðan og öfugt. Huglæg vellíðan minnkar einnig eftir fráfall maka en eykst við hjónaband. Kannski ekki nýr sannleikur, en það sem athyglisverðara var að samkvæmt rannsóknum Easterlins virðast hjónabönd hafa bein áhrif á huglæga vellíðan heildarinnar, eða þjóða. Þannig fullyrti hann að því fleiri hjónabönd í þjóðfélagi því meiri almenna vellíðan allra í því þjóðfélagi. Hann talaði ekki um áhrif skilnaða á hamingju. Menntað fólk er hamingjusamara en minna menntað fólk. Fylgni hjónabanda og heilsu við hamingjuna er þó ekki alveg fullkomin vegna ólíkra þröskulda fólks, sem má einfaldlega skýra út með ólíkum væntingum fólks. Nýjar væntingar vakna þegar þeim "gömlu" hefur verið fullnægt. Þetta á þá helst við um efnislegar væntingar. Þó er það svo að hallatala rauntekna er sú sama og hallatala þeirra tekna sem "þú þarft til að komast af", samkvæmt rannsóknum Easterlins. Með öðrum orðum það sem við þénum er rétt aðeins nóg til að framfleyta okkur. (mynd 1.2.) (byggð á gögnum frá USA.)
Eftir að Easterlin hafði skýrt niðurstöður sínar varðandi hamingju, væntingar og þætti sem hafa áhrif á hvorttveggja lagði hann drög að bættri kenningu um innkomu og hamingju. Hvorki aðlögun að sældarlífi né félagslegur samanburður meðal manna er jafn í öllum þeim deildum sem hafa áhrif á hamingju. Menn áætla að þættir í ákveðnum deildum hafi frekari áhrif á vellíðan og hamingju en aðrir og áætla að væntingar þeirra séu fasti vegna ákveðinna fyrirmynda sældarlífs og félagslegs samanburðar. "Og að þessu gefnu," hélt Easterlin áfram, fórnar mannfólkið oft þeim þáttum sem í raun gerir það hamingjusamara fyrir deildir sem vega ekki eins þungt á vogarskálum. Heilsu og fjölskyldu er fórnað fyrir neyslu á efnis- varningi þegar áherslan ætti frekar að vera á heilsu og fjölskyldu. Því er vekefni stjórnvalda að mati Prófessors Easterlins að móta hegðun og forgang fólks svo hámarka megi hamingju. Af þessu skyldi öll stefnumörkun ríkisvaldsins mótast. Þetta var hans skýring á þversögninni, þ.e. að ekki væri marktækt samband milli tekna og hamingju (sjá mynd 1.1.) (byggð á gögnum frá USA).
Á eftir Easterlin steig prófessor Daniel Kahneman frá Princeton og handhafi Nóbelsverðlaunanna í hagfræði á stokk og talaði um nytsemi (utility) og muninn á völdu notagildi byggðu á vali og reyndu notagildi, byggðu á sældarhyggju. Kahneman er orðinn gamall og erfitt var að skilja það sem hann sagði auk þess sem kenningar hans voru of hagfræðilegar í alfa og sigma fyrir mitt einfalda höfuðtau. En Kahneman fékk Nóbelsverðlaunin einmitt fyrir að samhæfa rannsóknir sínar í sálfræði við hagfræði.
Annar dagur ráðstefnunnar hófst á erindi dr. Andrews Oswalds frá Warrick-háskóla í Englandi. Honum til aðstoðar var Lord Layard. Erindið fjallaði um ójöfnuð og hamingju. Dr. Oswald varð tíðrætt um afstæði hamingjunnar í ójöfnu samfélagi. Það hvernig þáttum sem hafa veruleg áhrif á vellíðan og ójöfnuð svo sem heilsu og tilfinningasamböndum væri fórnað fyrir efnislega hluti. Athyglisvert að hlusta á Lord Layard ræða á sömu nótum hvað fólk fórnaði miklu fyrir ríkidæmi en þrátt fyrir að þjóðfélög yrðu almennt ríkari yrðu þau ekki hamingjusamari. Hann sýndi fram á að traust í samfélögum hefði minnkað og það hefði neikvæð áhrif á hamingju. Einnig væri skýringa á þversögninni að leita í tálsýn einstaklinga í sínum samanburði við aðra og hvernig sá samanburður ýtti undir efnislegt kapphlaup. Hann tók dæmi af rannsókn sem sýndi að fólk vildi frekar fá 5 milljónir á ári, ef allir aðrir fengju 2,5 milljónir, heldur en að fá 10 milljónir ef aðrir fengju 20 milljónir. Þeir félagar enduðu svo á því að ræða velferðarþjóðfélagið (3 gerðir samkvæmt Esping Andersen) og hvernig hagfræðin gæti tekist á við tálmyndir hamingunnar. Þar bar skattamál og jaðarskatta hæst ásamt því umdeilda fyrirbrigði samneyslu í "samfélögum" einstaklinga. Ég hvarf um stund í huganum aftur til kenningar um að allt sem maðurinn gerði, gerði hann fyrir sjálfan sig og að engin óskilyrt ást væri til nema sjálfselskan og ást á eigin afkvæmum. Var þetta hin breyska dauðasynd sem æ erfiðara var að eiga við. En þá skaut Kant upp kollinum og sagði mér að á endanum værum við öll á sama báti.
Næsti dagur ráðstefnunnar hófst á verslunar- og athugunarferð um miðborg Mílanó. Stórbrotin borg með þessa stórbrotnu Dómkirkju í hjarta sínu. Ég fann nú samt fljótlega Bueno Aresstræti og Napóleónströð, en þar blöstu við margar ásjálegustu klæðabúða heimsins. Þarna hlaut hamingjan að búa, eða allavega forskrift að henni. Ég sogaði í mig andrúmsloftið, götusalana, marmarann, flísarnar, fágaðar en alvarlegar afgreiðsludömurnar og leit á verðmiða með þriggja stafa tölum. Þetta var lífið. Þversögnin varð svo fullkomnuð er ég fjárfesti í nýrri flík og leið strax betur. Að sjálfsögðu gekk ég beint til aflausnar í Dómkirkjuna. Fór í gegnum vopnaleit áður en ég hitti Guð og játaði efnissyndir mínar og hégóma.
Er ég sneri aftur á ráðstefnuna, aftur komin í jafnvægi, var Ruut Veenhoven, prófessor í hamingjufélagsfræðum, kominn í ræðustólinn. Veenhoven hafði aðra hamingjunálgun enda félagsfræðingur. Veenhoven benti í upphafi á að fólk væri hamingjusamt þrátt fyrir félagsleg og einstaklingsbundin vandræði. Hamingjan væri byggð á virkum þörfum en ekki ákveðinni hugsjón og virkar þarfir þróuðust áfram þrátt fyrir erfiðleika og vandræði. M.ö.o.: hamingjunni er ekki paradís nauðsynleg. Hamingjan gengur hvorki í erfðir né er afstæð. Tálsýn hamingju þversagnarinnar liggur innra með okkur. Í því hvernig við upplifum og tökumst á við vandamál og í okkar eigin kenningu og skoðun á hamingjunni.
Veenhoven er einn þeirra sem hefur helgað líf sitt rannsóknum á hamingjunni og birti hann allmargar skyggnur af samanburði meðal þjóða heims og kom þar fram að Íslendingar væru hamingjusamasta þjóð í heimi, eins og mynd 1.3. ber með sér. Veenhoven líkt og Lord Layard varð tíðrætt um hlutdeild og samnýtingu meðal manna og líkt og Richard Easterlin mæltu þeir með nýrri nálgun að hamingjusamari þjóðfélögum. Erfðabreyttur kapítalismi var eitthvað sem þyrfti að fara saman við endurhugsaða hagfræði ef hamingjan ætti að fylgja þjóðarhagvexti.
Eftir frábæra og nautnasama sjö rétta kvöldmáltíð í ítölsku hringleikahúsi vaknaði sunnudagurinn. Síðasti dagur þversagna hamingjunnar í hagfræði í Mílanó. Þá þrjá daga sem ráðstefnan stóð höfðu samhliða aðalréttum hennar verið um 25 málstofur þar sem minni spámenn kynntu sínar pælingar og pappíra. Í dag langaði mig bara að hlusta á prófessor Stefano Zamagni sem flutti síðasta framsöguerindi ráðstefnunnar sem hann kallaði: "Hið ómögulega hjónaband einstaklingshyggjunnar og hamingjunnar". Professor Zamagi undirstrikaði að mikilvægt væri að taka manneskjuna fram yfir einstaklinginn í allri nálgun að hamingjunni. Samfélögum yrði að skiljast það að samnýting sprytti út frá samúð hverrar manneskju og samfélagið sjálft væri spegill manneskjunar. Þar af leiðandi væri öllum til heilla að samnýtingu væri gert hærra undir höfði, ekki bara vegna bætts samfélags heldur einnig vegna þess að hamingja manneskjunnar er sprottin úr samskiptum og tengslum við aðrar manneskjur. Því væri það algerlega nauðsynlegt að pláss fyrir fórnfýsi fyndist innan hagfræðinnar. Opna þyrfti hagfræðina fyrir lögmáli gjafa, því að í gjöf lægi verðmæti tengsla.
"Ánægja verður virkileg ánægja ef aðrir taka þátt í henni líka". Á þessum orðum lauk þessari ráðstefnu um þversagnir hamingjunnar í hagfræði í Mílanó.
Vertu úlfur – Óbeislaður lífskraftur. Héðinn Unnsteinsson í viðtali við Hrafnhildi Hagalín
“Stutt” spjall við Snorra Björnsson - Snorri er góður “flugmaður” þannig að við náðum góðu útsýnisflugi yfir ýmsa þætti tilvistar. :)
Orsakir og mikilvægi geðheilsu á tímum covid-19
Birt á Vísi 31. ágúst 2020
Nýverið ferðuðumst við framkvæmdastjóri Geðhjálpar, Grímur Atlason, um nær helming landsins og kynntum okkur heilbrigðis- og félagslegs úrræði, bæði á vegum hins opinbera og frumkvöðla þriðja geirans.
Þegar ég tók við formennsku í landssamtökunum vildi ég að félagið starfaði í anda tveggja „slagorða“. Annars vegar gamals slagorðs finnska fyrirtækisins Nokia frá tíunda áratug síðustu aldar, að tengja fólk (e. „connecting people“) og hins vegar tilvitnun sem höfð er eftir Harry S. Truman forseta Bandaríkjanna: „Það er með ólíkindunum hverju þú færð áorkað í lífi þínu, svo framarlega sem þér stendur á sama um hver fær heiðurinn“.
Í nýrri stefnu félagsins er hlutverk þess skýrt: Að rækta geðheilsu íslendinga. Framtíðarsýnin er sú að félagið hafi eftir þrjú ár stuðlað að heilsujafnrétti, eflt fræðslu og veitt vandaða ráðgjöf þar sem þörfum allra hópa er mætt af virðingu. Við viljum ástunda framsækni í málaflokknum og þróa snjallar aðferðir sem styðja við þjónustu, fræðslu og hagsmunagæslu í samráði við notendur og aðstandendur. Við viljum ástunda öfluga geðrækt og standa að gerð geðræktarefnis fyrir alla aldurshópa. Síðast en ekki síst viljum við standa vörð um mannréttindi fólks með geðraskanir og aðstandenda þeirra.
Eftir ferð okkar Gríms er ég hugsi um það hvernig við öll, sem er umhugað um geðheilsu landsmanna, getum best hugað að henni, ræktað hana og eflt á tímum sem eru krefjandi. Um leið og við í samtökunum Geðhjálp stöndum vörð um gæði þeirrar geðheilbrigðisþjónustu sem er veitt, viljum við nú á næstu misserum einnig beina sjónum okkar að hinum endanum eða orsakaþáttum geðheilsu. Þáttum sem skipa alla máli og við eigum öll sameiginlega. Grunnþáttum eins og svefni, næringu, hreyfingu, bætiefnum, samskiptum, streitu o.s.frv. Það er ástæða fyrir því að eitt af fjórum fagsviðum Landlæknisembættið er lýðheilsa (áður áhrifaþættir heilbrigðis) og tólf af sjötíu starfsmönnum embættisins sinna orsakaþáttum heilsu.
Í Morgunblaðinu í síðustu viku (28.08.20) var sérblað um heilsu. Þar var m.a. viðtal við Elísabetu Reynisdóttur næringafræðing sem lærði fagið til að ná tökum á eigin heilsu. Elísabet ræðir m.a. um áhrif áfalla á lífsleiðinni og tekur þar með að mínu mati undir þá áherslubreytingu sem er að verða í geðheilbrigðismálum, þ.e. að litið sé í auknu mæli til orsaka og orsakamynstra er kemur að því að bregðast við röskunum en ekki einungis reynt að sefa afleiðingar. Elísabet talar einnig um hið fornkveðna, mikilvægi þess að nálgast líkama og geð sem eina heild. Reyndar talar Elísabet um andlega heilsu en ekki geðheilsu. Hvort forskeytið eigum við að nota?
Við Grímur heimsóttum fólk og úrræði í þremur stórum sveitarfélögum á landsbyggðinni. Heilt yfir var staðan svipuð. Fjárhagsáætlanir sveitarfélaga eru í smíðum og töluverður niðurskurður er framundan á meðan starfsfólki þykir einsýnt að álag muni aukast. Sömu sögu er að segja af stofnunum og úrræðum ríkisins á sömu stöðum. Búist er við auknu álagi samhliða niðurskurði. Aðilar þriðja geirans eru með margar góðar hugmyndir en þær kalla á samvinnu og stuðning hins opinbera til þess að komast í framkvæmd. Samvinnu.
Eftir þessa 1500 km. ferð þótti mér þrennt standa upp úr. Í fyrsta lagi eru skipulagheildirnar of margar í okkar fámenna samfélagi. Í öðru lagi skortir þau sem vinna að geðheilsu, frá orsökum að afleiðingum, frá geðheilsu í samfélagi að geðröskunum í geðheilsuteymum, félagsþjónustu sveitarfélaga og að starfsendurhæfingu, aukna fjármuni, mannafla og umfram allt samhæfingu á milli kerfa. Í þriðja lagi þurfum við sem þjóð á öllum okkar styrk að halda, þ.e. umburðarlyndi, skilning og aðlögunarhæfni, til þess að standa hvert með öðru, sýna skilning, hlusta og vera til staðar bæði fyrir okkur sjálf og aðra. Við þurfum að standa vörð um sameiginlega geðheilsu. E.t.v. þarf sameiginlegan eða einstakan samfélagssáttmála þegar geta almannaþjónustunnar dregst svo mikið saman um leið og þörfin eykst.
Í huglægum málaflokki þar sem greiningar eru byggðar á hugsun, einhverju sem við höfum aldrei geta skilgreint og oft ekki skilið, þá liggur í hlutarins eðlis að það eru fáir mælikvarðar til á geðheilsu. Einn mælikvarði er þó til og hefur verið til umfjöllunnar undanfarna daga, þ.e. hlutfall þeirra sem falla fyrir eigin hendi af 100.000 íbúum. Við höfum í gegnum árin veigrað okkur við að ræða þennan mælikvarða opinberlega. Ræða þann geðheilsubrest sem býr að baki sjálfsvígi og þann skyndilega missi, sársauka og sorg sem situr eftir hjá aðstandendum.
Nú þegar þróun félagslegra- og efnahagslegra orsakaþátta heilbrigðis bendir til þess að það verði áskorun að viðhalda góðri geðheilsu er mikilvægt að huga bæði að sókn og vörn. Sókn í þeirri merkingu að vinna með orsakaþætti og vörn í þeirri merkingu að bæta viðbragðskerfi okkar. Þetta verður áskorun því á sama tíma er mikil aðlögun nauðsynleg, aðlögun sem kallar á breyttar væntingar á tímum þar sem einstaklingsrétturinn hefur aldrei verið ríkari.
Héðinn Unnsteinsson
Formaður Geðhjálpar
Viðtal í Silfri Egils 12. janúar 2020 um hugmyndir að einföldun íslenskrar stjórnsýslu
Skömm
Greinin birtist í Fréttablaðinu 10. janúar 2020
Það hefur í ár og aldir hvílt skömm yfir því að vera öðruvísi – hugsa öðruvísi – haga sér öðruvísi. Í tilviki „geðsins“ hefur „öðruvísi“ ávallt verið huglægt mat á huglægu ástandi. En hversu mikið öðruvísi þarftu að vera til að vera öðruvísi?
Á þeim árum sem ég vann fyrir geðsvið Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) eignaðist ég vinkonu sem hafði mikil áhrif á mig. Hún heitir Wilma Boevink og kemur frá Hollandi. Hún starfar sem doktor við rannsóknarstofnun kennda við Trimbos í Utrecht í sama landi. Wilma sagði mér sögu sína af geðröskun og hvernig henni tókst að ná jafnvægi í sínu geðnæma sinni, klára doktorspróf og koma sér í viðurkennda stöðu í samfélaginu.
Wilma sagði eitt sinn við mig að þegar einstaklingur sem greindur hefði verið af kerfinu með geðröskun talaði opinberlega um reynslu sína ætti hann það ávallt á hættu að vera smækkaður í geðgreininguna.
Á undanförnum tveimur áratugum hafa rannsóknir á fordómum og mismunun í garð geðnæms fólks með geðraskanir aukist ásamt því að alls kyns leiðir til þess að koma í veg fyrir mismunun og draga úr fordómum hafa verið reyndar. Einn af frumkvöðlum þessara rannsókna, Graham Thornicroft, breskur geðlæknir, hefur bent á að helsta áskorun framtíðarinnar sé að ákvarða hvaða inngrip séu hentugust til þess að samfélagið dragi sem mest úr mismunun gagnvart fólki með geðraskanir. Thornicroft talar um þrjú stig er kemur að fordómum. Í fyrsta lagi fáfræði, í annan stað fordóma og í þriðja lagi mismunun. Svo sannarlega hafa verið gerðar tilraunir til að draga úr fáfræði síðustu áratugina er kemur að geðheilsu og geðröskunum, einnig hefur þeim hugsanaferlum og afstöðu sem móta fordóma verið ögrað og að lokum hefur það hegðunarmynstur sem mismunun byggir á verið fyrirbyggt að mörgu leyti með reglum.
Árið 2009 var birt alþjóðleg rannsókn á fordómum og mismunun í garð fólks með geðraskanir. Þetta er eina raunverulega rannsóknin sem gerð hefur verið á Íslandi um stöðu mála. Þar var viðhorf fólks til þunglyndra og fólks greint með geðklofa borið saman við einstaklinga sem tókust á við astma. Niðurstöðurnar voru sláandi. Fólk kaus almennt mun meiri félagslega fjarlægð frá fólki með geðraskanir en fólki með astma. Í heildinni sýndi rannsóknin að á Íslandi væru útbreiddir neikvæðir fordómar í garð fólks með geðraskanir. Því miður hefur rannsóknin ekki verið endurtekin svo ómögulegt er að segja hvort eitthvað hafi breyst á tíu árum.
Frá árinu 1874, er fyrstu greiningar litu dagsins ljós, til dagsins í dag hefur geðgreiningum fjölgað hundraðfalt eða úr sex í 600 og því mætti ætla að fleiri séu nú öðruvísi en áður. Mér hefur fundist á þeim þrjátíu árum sem ég hef kynnst fólki sem býr við geðraskanir að með árunum hafi stolt þeirra og valdefling á eigin skapandi mennsku aukist og þar með dregið úr skömm þeirra tengdri hinum huglæga merkimiða samfélagsins. En á sama tíma er ég ekki viss um að sú skömm sem samfélagið býr við í garð þeirra sem eru „öðruvísi“ hafi minnkað jafn mikið.
Samfélag okkar hefur að einhverju leyti notað háð og grín til að takast á við og hlutleysa skömm sína gagnvart geðsjúkum. Enn eru íslensk stórfyrirtæki að nota gamlar klisjur úr kvikmyndum frá síðustu öld sem sýna geðsjúka í kómísku ljósi og viðhalda á sama tíma skilyrtu viðhorfi í garð fólks með geðraskanir.
Nú þegar um þriðjungur samfélags okkar býr við geðgreiningu er þá ekki kominn tími fyrir okkur að horfast í augu við þessa aldagömlu skömm? Mörg okkar sem erum geðnæm og höfum fengið greiningar eru löngu búin að skila skömminni og fjölbreytt samfélag 21stu aldarinnar á ekki að eiga pláss fyrir hana.
En áður en við getum svarað spurningunni væri gagnlegt að hlutgera viðhorf samfélagsins með endurtekinni rannsókn á fordómum og mismunun í garð fólks með geðraskanir.
Ég hugsa oft til orða Wilmu þegar ég tel mig verða varan við fordóma í íslensku samfélagi sem á að teljast umburðarlynt. Ég velti því fyrir mér hvort margir velji enn að halda sig til hlés í samfélagi sem tekur afstöðu til þeirra út frá greiningum byggðum á 145 ára huglægu greiningarsniðmáti sem litað hefur verið af skömm um aldir?
Einfaldara Ísland
Morgunblaðið 3. janúar 2020
VERÐUR
Væri skynsamlegt fyrir þessa fámennu þjóð að einfalda og breyta stjórnskipulagi sínu og þar með virkni kerfisins fremur en að takast látlaust á um innhald þess? Mætti með einföldun skipulags koma í veg fyrir meintan „dauða lýðræðis og upprisu kerfisins“ svo vitnað sé í pistil Þorsteins Pálssonar frá 11. nóvember sl. á sjónvarpsstöðinni Hringbraut. Pistillinn hefst á tilvitnun í ræðu formanns stjórnmálaflokks af fulltrúaráðsfundi: „Vandinn sem við stöndum nú frammi fyrir hér á landi og víðar er að lýðræðið er hætt að virka sem skyldi. Kerfið ræður.“ Þorsteinn hrekur sjö dæmi sem formaðurinn nefnir um slíka þróun. Dæmi sem öll snúa að innihaldi kerfisins og virkni en ekki skipulagi þess. Getur verið að þrátt fyrir að Þorsteinn skjóti dæmi formannsins í kaf hvað kerfisræði varðar að það sé engu að síður hægt að einfalda og bæta almannaþjónustuna á Íslandi með einföldun, skipulagsbreytingum og bættri virkni?
Getum við sammælst um að það gætu falist mikil tækifæri í að einfalda stjórnkerfi fyrir 358.000 manns? Markmiðið er þríþætt: Í fyrsta lagi að bæta þjónustu við íbúa og færa hana nær þeim. Í annan stað að nýta betur þá tæpu 1.300 milljarða króna af almannafé sem við greiðum árlega til samneyslunnar og að síðustu að jafna, einfalda og styrkja stjórnkerfi framkvæmdavaldsins. Framtíðarsýnin er að hér yrði fjölskipað stjórnvald með níu ráðuneytum á fyrsta stjórnsýslustiginu. Á seinni stiginu, nú þegar öll „jarðarbönd“ trosna og þjónusta á tímum fjórðu iðnbyltingarinnar færist í rafrænt form sem er án allra sveitarfélagamarka, væri skynsamlegt að átta til tólf sterk sveitarfélög tækju við málaflokkum á borð við málefni aldraðra, hjúkrunarheimili heilsugæslu og framhaldsskóla frá ríkinu. Slík einföldun og tilfærsla verkefna þýddi ekki einungis að ofangreindri framtíðarsýn yrði náð heldur byði þetta einnig upp á meiriháttar hagræðingartækifæri hvað varðar endurskoðun á stofnanakerfi ríkisins. Stofnunum yrði breytt, þeim fækkað og þær styrktar. Einfaldara Ísland.
Undanfarna mánuði hefur verið töluvert rætt um einföldun, umbætur og breytingar á almannaþjónustunni og ýmsir aðilar hafa bent á þörfina á að einfalda og bæta stjórnkerfi okkar. Líklegt er að málið verði á stefnuskrá einhverra pólitískra flokka fyrir næstu kosningar. Tveir flokkar hafa þegar lagt af stað og óskað eftir reynslusögum notenda úr kerfinu, vonandi í þeim tilgangi að auðvelda flokkunum grunnvinnu fyrir tillögur að kerfisbreytingum. Án efa er það gagnlegt að leita eftir reynslu notenda á almannaþjónustunni en í mínum huga liggur vandi kerfisins í tveimur meginþáttum sem erfitt er að ímynda sér að slíkar sögur nái utan um, þ.e. menning og skipulag kerfisins sjálfs. Samkvæmt kenningum í stjórnunarfræðum „borðar“ menning kerfisins viðleitni til stefnubreytinga og með sama hætti mætti halda því fram að skipulag kerfisins hefði yfirhöndina þegar kemur að virkni þess.
Með stjórnsýsluúttektum, vinnustofum og stefnumótun er endalaust hægt að vinna með menningu skipulagsheilda innan almannaþjónustunnar en ég er þeirrar skoðunar að heillavænlegast sé að breyta hvoru tveggja samhliða; skipulagi kerfisins og innleiða menningarbreytingu. Mörgum finnst skynsamlegast að horfa fyrst til grunnskipulags þess valds (þjónustuumboðs) sem liggur á sviði framkvæmdavaldsins.
Mér virðist vandi stjórnarflokka hverju sinni, þegar kemur að umbótum á stjórnkerfinu, ekki vera skortur á vilja eða umboði heldur frekar sá að eftir 6-8 mánaða stjórnarsetu hafi viljinn og fyrirheitin vatnast út.
VAR
Stjórnarráðið er samheiti yfir ráðuneytin. Árið 2011 var lögum um Stjórnarráð Ísland breytt. Áður en til breytinganna kom hafði nefnd skipuð af forsætisráðherra sent frá sér skýrsluna „Samhent stjórnsýsla“ og lagt til ýmsar breytingar. Kristín Ólafsdóttir kemst að þeirri niðurstöðu í rannsókn sinni frá 2016 að heildarendurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands hefði ekki orðið nema vegna efnahagshrunsins haustið 2008: „Hrunið var ástæða þess að gengið var til kosninga á þessum tíma, sem annars hefði ekki verið. Hrunið var ástæðan fyrir að þessir flokkar fengu meirihluta á Alþingi. Hrunið sýndi að kerfið hafði ekki séð í hvert stefndi og var vanhæft að taka á ástandinu sem skapaðist í kjölfarið og því þurfti að breyta kerfinu.“
Tillögur nefndarinnar áttu vissar rætur í stefnustraumi sem nefndur er samhæfð stjórnsýsla, á ensku ýmist „joined-up government“ eða „whole-of-government“. Slíkur straumur og vinnulag grundvallast á þátttöku fleiri aðila sem koma bæði innan og utan kerfsins. Í megindráttum sneru tillögur nefndarinnar að því að auka samheldni innan ríkisstjórna þar sem rannsóknir höfðu sýnt að sjálfstæði ráðherra væri óvíða meiri en á Íslandi.
Í fyrsta lagi taldi nefndin að aukna samheldni þyrfti til svo að ríkisstjórnin sameiginlega hefði meira að segja um stefnumótandi yfirlýsingar einstakra ráðherra, fjárhagslega skuldbindandi ákvarðanir, þýðingarmiklar reglugerðabreytingar, embættisveitingar og stefnumarkandi breytingar á löggjöf. Í annan stað lagði nefndin til breytingar á hlutverki Stjórnarráðsins gagnvart stofnunum, þar sem ekki yrðu sérstakar stjórnir og að samskipti ráðuneyta og stofnana yrðu efld og tilfærsla starfsfólks aukin. Í þriðja lagi lagði nefndin til breytt landslag í mannauðsmálum Stjórnarráðsins; sérstaka mannauðseiningu innan Stjórnarráðsins ráðuneytum til ráðgjafar. Markmið með slíkri einingu væri m.a. að stuðla að hreyfanleika starfsfólks innan kerfisins og auka samkeppnishæfni ráðuneyta á vinnumarkaði. Í fjórða og síðasta lagi lagði nefndin það til að styrkja sameiginlega getu ráðuneytana til stefnumótunar með uppbyggingu þverfaglegra greiningar-, stefnumótunar-, og verkefnisstjórnunarteyma innan Stjórnarráðsins.
Í lokin var skerpt á því sem Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) hafði haldið að íslenskum stjórnvöldum; að skýra betur miðlægt hlutverk forsætis- og fjármálaráðuneyta og samstarf þeirra þannig að samhengið milli stefnu ríkisstjórnar og fjárlagatillagna Alþingis væri tryggt. Hverfa átti frá sílóahugsun með samhæfðri stjórnsýslu. Aukin „lárétt“ samhæfing „lóðréttu sílóanna“ er leiðin til að takast á við „láréttar“ áskoranir framtíðarinnar. Nefndin lagði ekki til „samábyrgð ríkisstjórnar“ eða það sem kallað hefur verið „ríkisstjórn sem fjölskipað stjórnvald“ þar sem allar ákvarðanir eru teknar sameiginlega í ríkisstjórn og allir ráðherrar bera á þeim sameiginlega ábyrgð. Nefndin lagði þó til að æskilegt væri að tryggja með einhverjum hætti pólitíska samábyrgð ríkisstjórna í ákveðnum málum. En hefur sú framtíðarsýn sem nefndin lagði til gengið eftir?
ER
Það er mat flestra innan Stjórnarráðsins að samráð og samstarf hafi aukist og tekið á sig breytta mynd eftir síðustu breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands. Umbætur hafa m.a. snúið að því að opna stjórnsýsluna, gera hana gegnsærri, innleiða rafræna stjórnsýslu og draga úr óskilvirkni. Sameiginleg ákvarðanataka og samvinna þvert á kerfið hefur aukist bæði um málefni sem hið pólitíska dagskrárvald fjallar um t.d. á vettvangi ráðherranefnda og m.a. með tilraunum að vinna mál innan stjórnkerfismiðju innan hinnar svokölluðu stofnanadagskrár embættismanna. En „sílóin“ standa.
Eitt sinn skömmu eftir lagabreytinguna hélt ríkisstjórnin fund úti á landi og ákvað að þeirra tíma hefð að veita stórum fjárhæðum í uppbyggingu innviða og mannauðs á sama stað. Viku eftir fundinn voru sendir sjö embættismenn og sérfræðingar úr sjö ráðuneytum til að funda með heimafólki og ganga frá málum. Þrátt fyrir að allir sérfræðingarnir hefðu starfað lengur en í fimm ár fyrir Stjórnarráðið voru fimm þeirra að hittast í fyrsta sinn auglitis til auglitis í flugvélinni.
Hér er enn við lýði ráðherrastjórnsýsla þar sem ákvarðanir ráðherra eru teknar í ráðuneytum, oft ekki með nægilegri yfirsýn yfir mögulega tengda þætti í öðrum ráðuneytum sem kunna að skarast við ákvarðanatökuna í „sílóunum“. Þessi sílóstrúktúr Stjórnarráðsins litar annað skipulag og virkni kerfisins. Skipulagið gegnsýrir tæplega 20.000 starfsmenn sem starfa í okkar þjónustu hjá ríkinu og jafnvel að hluta þeirra 22.000 sem sinna okkar málum á sveitarstjórnarstiginu. Tæplega 42.000 manns af 197.000 allra á vinnumarkaði eða rúmlega 21%. Er ekki skynsamlegt að auka samhæfða ákvarðanatöku í fámennu samfélagi? Kann að vera að besta leiðin til þess sé að breyta og einfalda strúktúr almannaumboðsins? Samhliða gæti verið að önnur leið að flýta uppbyggingu þannig að öll ráðuneytin yrðu saman á Stjórnarráðsreitnum með sameiginlegri stoðþjónustu undir einu þaki? Viljum við ekki að ríkisstjórn framkvæmdavaldsins sinni málum og okkur íbúum í einni rútu en ekki á níu einkabílum?
Ríkisstjórnarfundir eru ekki stjórnvald, þeir geta ekki tekið stjórnsýsluákvarðanir á sviðum einstakra ráðherra. Til þess þarf atbeina ráðherranna. Stjórnfar framkvæmdavaldsins í Svíþjóð er fjölskipað stjórnvald sem fundar oftar en tvisvar í viku og tekur sameiginlega um 20.000 ákvarðanir á ári. Í Svíþjóð stýra ráðherrar litlum ráðuneytum og geta ekki gefið stjórnsýslunni fyrirmæli nema sameiginlega í gegnum ríkisstjórn. Þetta hefur meðal annars í för með sér stóraukið samráð og pólitíska ákvarðanatöku á ríkisstjórnarfundum.
„Vandinn sem við stöndum nú frammi fyrir hér á landi og víðar er að lýðræðið er hætt að virka sem skyldi. Kerfið ræður.“ Svo að þessi þróun sem formaður stjórnmálaflokksins vísaði til í byrjun nóvember verði ekki að veruleika væri skynsamlegt að fá almannavaldið til að virka betur í þágu þeirra sem það veita, almennings, og breyta kerfinu svo skynsöm pólítík eigi auðveldara með að nýta það almenningi til auðnu. Til þess að svo geti orðið þýðir ekki eingöngu að safna reynslusögum um þjónustu kerfisins heldur verður að skoða heildamyndina af strúktúr þess og einfalda það verulega þannig að virknin geti ráðið strúktúr og stefnuviðleitnin valdi menningunni en ekki öfugt.
Áhrifavaldar
Grein í 100 ára afmælistímarit hjúkrunafræðingafélags Íslands - Desember 2019
Fyrstu kynni mín af manneskju sem ég tengdi við hjúkrun voru af ömmusystur minni fríðu sem var hjúkrunarkona (eins og það var þá kallað) á kleppsspítala. hún var svo yndisleg manneskja, hlý, úrræðagóð, umhyggjusöm og æðrulaus. Snör var hún þó til allra ákvarðana og bjó yfir þeim sjaldgæfa mannlega eiginleika að geta „stýrt“ án þess að nokkurfyndi fyrir því að hún væri að stjórna, að hún væri að skipta sér af flæði alheimsins. hún starfaði án strits og krafðist engrar umbunar. Eftir að hún hætti að vinna sem hjúkrunarkona man ég eftir því að hafa í ófá skiptin komið í heimsókn til hennar og þegið manneldisráð og ábendingar um heilsusamlegan lífstíl. Þetta var áður en undirritaður gerði tilraunir í gegnum alls kyns orð, eins og tíu geðorð og fjórtán lífsorð, að hafa áhrif á skilyrta og vandlega félagsmótaða vitund, hugsun og hegðun fólks á Íslandi. En flestir eru sammála um að það sé fátt erfiðara en að hafa áhrif á vitund, hugsun eða hegðun manna, í þessari röð, nema þá kannski að hafa áhrif á eigin vitund, hugsun og hegðun.
Skynsamleg regla á öllu sköpunarverkinu Í bók François-Marie Arouet, sem hann skrifaði undir pennanafninu Voltaire, Birtingi, segir frá ferðalagi Birtings, kúnigúndar, ungrar ástar hans, og læriföðurins, prófessors altúngu, um heiminn. Boðskapur bókarinnar snýst að stærstum hluta um gagnrýni á löghyggju 18. aldar. að sögn altúngu hefur verið sýnt fram á að hlutirnir geti ekki verið öðruvísi en þeir eru því að allt sé miðað við einn endi sem hljóti þar með að vera hinn allra besti endir. Það er því að hans mati skynsamleg regla á öllu sköpunarverkinu og vel það því guð hlýtur að hafa skapað hinn besta mögulega heim allra hugsanlegra heima, jafnvel þótt íbúar þessa heims komi ekki endilega alltaf auga á það. Við þurfum því ekkert að vera skipta okkur af flæði alheimsins.
Við ættum því e.t.v. ekkert að reyna að hafa of mikil áhrif á aðra og láta fulltrúalýðræðinu eftir að hámarka almannaheill á kostnað frjáls vilja í gegnum lög og reglugerðir, leggja línur okkar mannlegu tilvistar í samfélaginu, treysta okkar kjörnu fulltrúum til að vita best. En einhvern veginn hefur það nú æxlast þannig að við treystum kjörnum fulltrúum okkar minna en áður, heimurinn hefur tæknivæðst hratt og einstaklingsrétturinn hefur vaxið og við sem notendur þjónustu viljum hafa áhrif á hana. Við sem áður hlýddum prestum, læknum, lögfræðingum og embættismönnum eigum nú aukinn rétt og hlustum á aðra áhrifavalda, fólk sem er jafningjar okkar, fólk sem hefur valdeflst og fundið boðskap sínum farveg í hinni rafmögnuðu tækni sem hefur gerbreytt og á margan hátt endurskilgreint samfélög okkar. Áhrifavaldar.
Lýðheilsa Íslendinga
Mannleg tilvist getur á stundum verið snúin og mörgum árum eftir að ég kynntist fríðu frænku, hjúkrunarkonunni sem kunni vel að meta lýsi og gróft brauð, komst ég á snoðir um aðra konu sem lagði sig fram um að hafa áhrif á vitund, hugsun og breytni samferðafólks síns, áhrifavald þess tíma. Þetta var Sigríður jónsdóttir sem var langamma fríðu og móðir nonna og Manna. hún setti fram sínar „heilbrigðisreglur“ árið 1870, þá komin á miðjan aldur og að undirbúa ferð til Vesturheims eins og margir Íslendingar á þeim árum. Svo virðist sem aðrir hafi fylgt í kjölfarið með hugleiðingar um lýðheilsu Íslendinga því 1899 birti Bríet Bjarnhéðinsdóttir svipaðar „reglur“ í kvennablaðinu. um leið og ég óska ykkur, þjónandi áhrifavöldum heilbrigðis, til hamingju með árin 100 langar mig að deila heilbrigðisreglum Sigríðar með ykkur.
Einfaldara Ísland
Morgunblaðið - Miðvikudagur, 24. júlí 2019
Fyrir nokkrum vikum birtist frétt í einum af miðlum þessa lands. Fréttin var að frá 1. desember 2018 til 1. maí 2019 hefði orðið hlutfallslega mest fjölgun íbúa í fámennu sveitarfélagi úti á landi, eða 12,1%. Þetta fámenna sveitarfélag skaut þar með sveitarfélögum eins og Reykjanesbæ og Árborg ref fyrir rass í fjölgun íbúa.
Það fjölgaði um sjö íbúa í fámenna sveitarfélaginu á ofangreindu tímabili.
Réttur sveitarfélaga til sjálfsstjórnar hefur verið verndaður í stjórnarskrá allt frá árinu 1874. Sveitarfélög eru handhafar framkvæmdavalds, fara með stjórnsýslu í héraði næst íbúunum. Núverandi skipan þeirra á sér rætur í danskri fyrirmynd frá miðbiki 19. aldar. Réttlætingin var að það væru mannréttindi íbúa sveitarfélags „að fá að kjósa þá sem færu með stjórn sveitarfélags í almennum og lýðræðislegum kosningum. Á þann hátt fengju íbúar sveitarfélagsins sjálfstjórn í eigin málum og yrðu lausir við afskipti skipaðra embættismanna konungs í sveitarstjórnarmálum“. Samkvæmt núverandi lögum um sveitarfélög nr. 38/2011 eru þau sjálfstæðar stjórnsýslueiningar sem stjórnað er af lýðræðislega kjörnum sveitarstjórnarmönnum í umboði íbúa sveitarfélagsins.
Í aprílmánuði sl. kom út grænbók stjórnvalda um stefnu og málefni sveitarfélaga. Verkefnisstjórn, sem var forveri þess starfshóps sem setti grænbókina saman, hafði skilað tillögum um stöðu og framtíð sveitarfélaga árið 2017. Þær tillögur sneru m.a. að því að stjórnvöld ættu að móta sér skýra stefnu til allt að 20 ára þar sem unnið væri með byggðamál, samgöngumál og fjármál sveitarfélaga út frá nýrri nálgun. M.ö.o. nálgun sem ætlað er að horfa til sveitarfélaga út frá þeirri þjónustu sem þau veita, þeirri þjónustu sem þeim er ætlað að veita og hún kortlögð m.t.t. landfræðilegra og lýðfræðilegra þátta. Auk þess var lagt til að endurskoða starfsemi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og að ríkið tæki þátt í markvissri styrkingu sveitarstjórnarstigsins. Stefnan er auðsjáanlega að fækka sveitarfélögum og styrkja þau.
Árið 2010, skömmu eftir hrunið, var verkefninu „sóknaráætlanir landshluta“ hrint af stað af hálfu stjórnvalda. Áætlanirnar voru unnar með það að markmiði að einfalda samskipti ráðuneyta og sveitarfélaga um byggðamál í gegnum landshlutasamtök. Samskipti um byggðamál buðu þá upp á samtal milli 12 ráðuneyta og 74 sveitarfélaga eða alls 888 möguleg samtöl milli stjórnsýslustiga. Með sóknaráætlunum stóð til að fækka samskiptunum niður í átta samtöl á milli eins stýrihóps allra ráðuneyta um byggðamál og átta landshluta. Það gekk eftir og síðustu átta ár hafa sóknaráætlanir verið virkt ferli valdeflingar landshluta í gegnum samtal tveggja stjórnsýslustiga. Sóknaráætlanirnar eru skilgreindar sem „þróunaráætlanir þar sem hver landshluti sameinast um framtíðarsýn, setur sér markmið og velur leiðir til að áætlunin nái fram að ganga. Markmið sóknaráætlana er að ráðstafa fjármunum, sem varið er til verkefna í einstökum landshlutum á sviði atvinnu-, byggða- og menningarmála, samkvæmt svæðisbundnum áherslum í sóknaráætlun landshlutans til samræmis við gildandi byggðaáætlun hverju sinni“.
Geta má sér til um að von þeirra stjórnvalda sem einfölduðu ofangreint samtal hefði verið, þótt það kæmi hvergi fram, að aukið samtal á landshlutavettvangi yki líkur á samlegð, samvinnu og jafnvel sameiningum sveitarfélaga. Sem slík er sóknaráætlun landshluta eitt verkfæri á vegferð að einfaldara Íslandi.
Veruleikinn
Á Íslandi búa nú rétt rúmlega 357.000 manns. Hér í þessu lýðræðissamfélagi er framkvæmdavaldinu deilt á milli níu ráðuneyta sem ekki eru fjölskipuð (þ.e. þau taka sjálfstæðar ákvarðanir hvert um sig), auk 72 sveitarfélaga. Innan framkvæmdavalds ríkisins eru einnig um 160 ríkisstofnanir sem starfa undir ráðuneytunum níu.
Á þeim árum sem greinarhöfundur hefur starfað innan tveggja ráðuneyta í Stjórnarráðinu að auknu samtali og samhæfingu innan Stjórnarráðsins og milli stjórnsýslustiga hefur oftar en ekki blasað við flókinn veruleiki er kemur að stefnu, fjármagni og árangri í ýmsum verkefnum. Sú hugsun sem ósjaldan hefur fylgt greinarhöfundi heim af þeim fjölmörgu samráðsfundum sem farið hafa fram á milli ráðuneyta, landshlutasamtaka, sveitarfélaga og ríkisstofnana hefur verið: „Hvernig í ósköpunum er hægt að einfalda þetta kerfi?“ Kerfi sem á að hafa það að markmiði að hámarka almannaheill fyrir það almannafé sem er til úthlutunar. Hvernig má það vera að ráðuneytin vinna svona mikið í sílóum? Getur það verið að innan kerfisins séu ólíkir hópar fólks að vinna að svipuðum málum án þess að vita mikið hver af öðum? Stendur lóðrétt kerfið frammi fyrir auknum láréttum áskorunum nútímans sem það nær illa að takast á við vegna þess að kúltúr og strúktúr halda því um of í sama farinu?
Á hverju ári deilir ríkið rúmlega 932 milljörðum króna af almannafé út til almannaþjónustu og sveitarfélögin samtals rúmlega 310 milljörðum króna sem opinberir starfsmenn í 38.000 stöðugildum sinna. Ein af grunnhugmyndafræðilegum stoðum fyrir lögum um opinber fjármál sem tóku gildi 2015 var að tengja saman stefnuþætti og fjármagn til árangurs. Sú vegferð hins opinbera er rétt hafin, en klárt er að með færri skipulagsheildum yrði hún auðveldari.
Sjálfsmynd
Hver er munurinn á sveitarfélögum og hestum? Jú, það er hægt að sameina sveitarfélög. Í einum landshluta á Íslandi reka tvö sveitarfélög saman grunnskóla þar sem börnin úr öðru þeirra borga fyrir matinn í hádeginu en hin ekki. Af hverju? Af því annað sveitarfélagið er svo stöndugt að það niðurgreiðir máltíðir fyrir börnin „sín“. En eru þetta ekki allt „okkar“ börn? Annað sveitarfélag tekur ákvörðun um umdeilt framkvæmdaleyfi til virkjunar með 40 íbúa umboð. Hver erum „við“?
Einhvern tímann á öndverðri síðustu öld bjuggu tveir stórbændur í Rússlandi. Þeir hétu Igor og Boris og áttu í mikilli samkeppni. Eitt vorið er Boris gekk um land sitt og hugaði að sprettu rak hann annan fótinn í forláta silfurlampa ættaðan frá Mið-Austurlöndum. Séu slíkir lampar handleiknir sprettur fram andi og það gerðist er Boris tók um lampann. Hann reis hátt upp og sagði við Boris: „Ég veiti þér eina ósk– en hugsaðu þig vel um þar sem ég er göfugur andi og þekki Igor fjandvin þinn og allt sem þú óskar þér mun ég veita Igori tvöfalt.“ Boris bölvaði og það fauk í hann en á svipskotsstundu birti yfir honum. „Ég veit hvers ég óska mér,“ sagði hann við andann mikla. „Ég óska þess að ég verði blindur á öðru auga.“
Við höfum frá fornu fari tengt sjálfsmynd okkar við land og með tilkomu dansks skipulags og sjálfstæðis tengt okkur við skipulagseiningar – sveitarfélög, bæi og borg. Menn slógust hér áður fyrr við og hnýttu í menn úr nágrannasveitarfélögum – hötuðust og stunduðu sígildan hrepparíg. Tileinkuðu sér án efa keimlíkt hugarfar og Boris hér í sögunni að ofan. Er ekki kominn tími til að fækka „við-um“ í skipulagslegu og stjórnsýslulegu tilliti á Íslandi?
Einfaldara Ísland
Getum við sammælst um að það felist gríðarleg tækifæri í að einfalda stjórnkerfi fyrir 357.000 manns? Markmiðið þríþætt: Í fyrsta lagi að bæta þjónustu við íbúa og færa hana nær þeim. Í annan stað að nýta þá tæpu 1.300 milljarða króna af almannafé sem við greiðum til samneyslunnar betur og að síðustu að einfalda og styrkja stjórnkerfi framkvæmdavaldsins. Framtíðarsýnin gæti verið á þessa leið: Níu ráðuneyti í fjölskipuðu stjórnvaldi á fyrsta stjórnsýslustiginu. Á seinna stiginu yrðu átta til sextán sterk sveitarfélög sem tækju við málaflokkum á borð við málefni aldraðra, heilsugæslu, framhaldsskóla og hjúkrunarheimili frá ríkinu. Slík einföldun og tilfærsla verkefna þýddi ekki einungis að ofangreindum markmiðum yrði náð heldur byði hún einnig upp á meiriháttar hagræðingartækifæri í stofnanakerfi ríkisins. Stofnunum yrði breytt, þeim fækkað og þær styrktar. Framtíðarsýnin þýddi líka það að „við“ Íslendingar fengjum tækifæri til að skilgreina sjálfsmynd okkar út frá stærri landsvæðum, þó án þess að tapa rótunum.
Nú á haustmánuðum skilst greinarhöfundi að ríkið ætli að eggja sveitarfélög til sameininga með fjármagni og í kjölfarið er hugmyndin, samkvæmt grænbókinni, að setja lög um lágmarksfjölda íbúa í sveitarfélögum. Markmiðið er að ná fram fækkun sveitarfélaga og styrkingu sveitarstjórnarstigsins. En tækifærið er stærra en áfangastökk yfir skurð því í slíkri styrkingu og fækkun felast tækifæri fyrir allt kerfið. E.t.v. eru það draumórar „óþekk(t)s embættismanns“ að slík umbreyting geti átt sér stað en framtíðarsýnin stendur og vonin um að kerfið, „við“, geti þjónustað betur í stærri, láréttari og styrkari einingum. Til þess þarf djörfung þeirra er standa við stýrið, djörfung sem oftast sést bara á fyrsta ári hverrar ríkisstjórnar, eftir það ræður kúltúr og strúktúr kerfisins um of.
Vonandi standa fleiri en sjö manneskjur á bak við mestu fjölgun í sveitarfélögum framtíðarinnar.
Grein - Vísir - Héðinn Unnsteinsson skrifar 22.11.2018 07:00
Nýir tímar?
Það er orðið langt um liðið síðan ég hef fundið löngun til þess að tjá mig um geðheilbrigðismál en nú langar mig að drepa niður staf um málaflokkinn.
Fyrir tuttugu árum bað móðir þáverandi unnustu minnar mig í einlægni um að hætta afskiptum af geðheilbrigðismálum. Ég hafði þá tjáð mig um eigin reynslu af geðnæmu ástandi um nokkurt skeið með það að leiðarljósi að auka skilning fyrir öðruvísi hugsanaferlum. Það er skemmst frá því að segja að ég fór ekki að ráðum hennar. Henni gekk gott eitt til en viðhorf hennar endurspegluðu þá forsendu að best væri að þegja um eitthvað sem samfélagið fordæmdi. Allt tal væri einungis til þess fallið að samfélagslegt „virði“ viðkomandi félli.
Mér fannst í kjölfarið skynsamlegast að beina herferð um geðrækt, sem þá var í undirbúningi, í þann farveg að herferðin byggði á geðheilsu, því að hana ættu allir sameiginlega. Umræða um geðheilbrigði hefur aukist og flestir eru sammála um að geðheilsa allra sé mikilvæg.
Umfang málaflokksins hefur aldrei verið meira. Það á við um alla hina þrjá samofnu hluta hans, þ.e. örorku, geðröskun og geðheilbrigði. Hlutfall örorkuþega vegna geðraskana af heildarfjölda örorkuþega hefur aldrei verið hærra eða 40%. Aldrei hafa fleiri greinst með geðraskanir enda hefur greiningarsniðmátið verið víkkað og raskanirnar orðnar um 600. Að síðustu hafa „geðheilbrigðir“ verið æ uppteknari af aðferðum sem bæta geðheilsu, eins og gjörhygli, hreyfingu og aðferðum sem almennt skila jafnvægi.
Hvað vil ég segja ykkur?
Í fyrsta lagi er það frábært hversu margir eru orðnir meðvitaðir um geðheilbrigði. Hvað það eru margir sem tjá sig um eigin reynslu. Hve margir ráðgjafar og fyrirlesarar fjalla um og vinna með fólki að bættri geðheilsu. Okkar hugsana- og hegðunarmynstur eru afar mikilvæg og í grunninn skiptir höfuðmáli að fara vel með lífsorkuna. Athygli okkar er ekkert annað en framkvæmdaarmur lífsorkunnar. Líf okkar er það sem við beinum athyglinni að.
Í annan stað er sjúkdómavæðingin innan geðheilbrigðiskerfisins uggvænleg. Að hluta til er hún skiljanleg, þegar rýnt er í það hversu ríka hagsmuni margir hafa af því að til séu sem flestar greiningar og „lyfjalausnir“ við þeim, auk þess sem samfélagsmynstur okkar mótast í æ ríkara mæli af kröfu um skyndilausnir. Hér þarf að ná betra jafnvægi á framboði og eftirspurn.
Í þriðja lagi vil ég segja ykkur að það fyrirfinnast enn fordómar og mismunun í garð þeirra sem eru geðnæmir. Ég hef ekki rannsókn til þess að styðja mig við og vil hér með eggja Jón Gunnar Bernburg og Sigrúnu Ólafsdóttur, prófessora við Háskóla Íslands, til þess að endurtaka alþjóðlega fordómakönnun frá árinu 2009. Ég vil sérstaklega meina að það séu fordómar í garð þeirra sem opinbera reynslu sína. Getur verið að skoðanir þeirra og viðhorf séu ekki metin að jöfnu og þessir einstaklingar almennt „virðisfelldir“ í samfélaginu?
Við erum öll sprottin af sama meiði, það eru ekki nema fáeinir niturbasar sem skilja okkur að. Jaðarinn er orðinn að miðjunni og „venjulega“ fólkið sem á síðari hluta síðustu aldar taldi best að tala ekki um fordæmda hluti er að deyja út. Áætlað er að nú séu um 25% þjóðarinnar geðnæm.
Hvað svo?
Nú höfum við búið við svipaða nálgun að geðheilbrigðismálum í tuttugu og fimm ár, þ.e. meðferð geðraskana með lyfjum, aukna sálfræðimeðferð, sérstaklega hugræna atferlismeðferð, og aukna umræðu og virkni þegar kemur að geðrækt. Á þessum tuttugu og fimm árum hefur geðsjúkum fjölgað, meðferð og endurhæfing aukist en engu að síður hefur öryrkjum vegna geðraskana fjölgað. Það hljómar þversagnakennt.
Það þarf því ekki að koma á óvart þó að nú berist fréttir af nýjum nálgunum. Frá því um síðustu aldamót hafa háskólar í Bandaríkjunum og Bretlandi verið að gera tilraunir með notkun hugvíkkandi efna (einkum psilocybin) í meðferð við þunglyndi. Þessar tilraunir hafa gengið vel og aðallega snúið að smáskammtameðferðum. Fyrr í þessum mánuði bárust fréttir þess efnis að frumkvöðlafyrirtækið Atai Life Science hefði ákveðið að fjárfesta fyrir tæpa 3 milljarða íslenskra króna í frekari rannsóknum á mögulegu lækningargildi hugvíkkandi efna fyrir geðsjúkdóma. Áhugavert er að sjá að ráðgjafar þessa fyrirtækis, eru þekktir sérfræðingar úr geðheilbrigðisgeiranum, þeir David Nutt og Tom Insel. Það skyldi þó aldrei vera að hugvíkkandi efni yrðu næsta framfarabylgja innan geðlæknisfræðinnar? Nógu lengi höfum við beðið eftir nýmælum í meðferð geðsjúkdóma.
Utan hringsins: Röð pistla sem birst hafa í Fréttatímanum 2015
1 . Tíðni
Ég er þjónn almennings og get því ekki tjáð mig um hvað sem er. Get ekki skrifað um pólitík. En hér eru 400 orð um eitthvað annað en pólitík.
„Sæðisfruma gærdagsins er lík morgundagsins“. Þessi orð eru höfð eftir Marcusi Aurelíusi, fyrrum keisara Rómaveldis og heimspekingi. Þau minna á hversu ævi okkar mannanna er stutt í heildarsamhengi þróunarsögu tegundarinnar. Það að vera einstaklingur í sam-félagi manna er verkefnið og tíminn til þess að ná „árangri“ í því verkefni er takmarkaður.
Maðurinn er gleyminn. Hann vill og hann langar. Honum finnst og hann heldur. En í raun getur hann aldrei átt neitt né verið viss um neitt nema e.t.v. um það að sá rafboðefnaflutningur og tíðni sem heldur hjarta hans og höfði kviku í sál hans og vitund mun vaxa, dofna og að lokum enda.
Við höfum í gegnum aldirnar átt með okkur samfélög um tilvistina. Smíðað ramma – siðferðisramma, lagaramma – strúktúrerað samfélögin og skilyrt hugsun og hegðun í gegnum tól og tæki eins og trúar-brögð, vísindi og stjórnspeki – og komist vel af. Eða hvað? Líf okkur hefur lengst í árum og samfélög okkar tekið miklum framförum.
En í hverju eru „framfarirnar“ í raun fólgnar? Við eigum nú rafmagnaða og jarðefnaknúna tilveru umvafða steypu, járni, gleri og plasti, jú og holdi – því samskipti eiga sér víst enn stað í gegnum hold. Við eigum möguleika á að komast á milli staða og samskiptaleiðum sem fyrir nokkrum öldum hefðu þótt óhugsandi.
Tilveran er „spanaðri“ en nokkru sinni fyrr – tíðni okkar lituð af háspenntu rafmagni, skjálífi, tjáningu, skoðunum, nokkuð stöðugu viðbragði við áreiti og að því mér virðist almennum skorti á tengingu við innsæi. En þrátt fyrir „framfarir“ okkar þá leitum við nú í enn ríkari mæli að upphafstíðninni – tíðni náttúrunnar. Tíðni sem við erum partur af þó oft viljum við hefja okkur yfir hana.
Við erum spendýr í grímubúningum. Grímudansleikurinn innrammaður af ofangreindum manngerðu römmunum en gefið líf með mennsku okkar og menningu. Ég vann eitt sinn með manni í vegavinnu sem sagði mér einn sumardaginn er ég var unglingur undir sólinni að það væru í raun einungis fjórir þættir sem skiptu máli í lífinu. Maðurinn var glaðvær í tíðni sinni þegar hann sagði mér þar sem hann stóð á hlýrabolnum í kaffiskúrnum að það sem skipti máli í lífinu væri (í þessari röð) að: Drekka, reykja, ríða og hanga. Að þessu sögðu stökk hann upp og greip með höndunum um einn þverbitann í lofti skúrsins og „hékk“. Af hverju að vera að flækja þessa stuttu ferð frá sæðisfrumu að líki um of?
2. Skipti
(Stílfærð sagan er ein af dæmisögum Aesops og ná rætur hennar aftur til sjöttu aldar fyrir Krist).
Það var dag einn að sólin og vindurinn tókust á um það hvort þeirra væri sterkara. Vindurinn sagðist hafa ýtt undir ófá snjóflóðin, rifið upp ótal tré og sökkt milljónum skipa. Sólin horfði á hann og sagði: „Það þarf ekki endilega að þýða að þú sért sterkari“. Vindurinn setti í brýrnar og sagði: „Ég get hulið þig skýjum þannig að þú fáir enga athygli“. Sólin brosti og svaraði af rósemd: „Ég held engu að síður að ég sé sterkari en þú“. Vindurinn rumdi: „Af hverju reynum við ekki með okkur?“ um leið og hann snerist í hringi leitandi að einhverju til að reyna afl sitt á.
„Eigum við að sjá hvort okkur getur eyðilagt fleiri mannabústaði?“ sagði vindurinn. „Nei, við skulum hafa þetta einfaldara“ sagði sólin. „Sjáðu konuna í fallegu kápunni sem gengur þarna áhyggjulítil niður veginn?“ „Já, eigum við að sjá hvort okkar getur fyrr þvingað hana af veginum?“ spurði vindurinn sólina. „Nei, það mun valda henni sársauka,“ svaraði sólin. „Við skulum frekar sjá hvort okkur fær náð henni úr kápunni.“
Vindurinn hringsnerist af tilhlökkun um leið og loftvogin féll. Hann hentist um loftið og hóf að þenja brjóst sitt. Hann smalaði saman dökkum skýjum og ýfði þau þannig að eldstrengir stóðu úr þeim og stefndu að jörðu. Um leið byrjaði hann að tæma brjóst sitt. Þá ýfðust drafnir á hafi og strítt var óstöndugum á storð. Konan horfði til himins og sveipaði sig kápunni og hélt fast um boðungana. Kári tæmdi nú brjóst sitt en það var sama hvað vogin féll og vindstiginn mögnuðust, kápunni varð ekki haggað af öxlum konunnar. Stormurinn umbreyttist nú í andvara, þrýstingur loftsins jókst að nýju og stilla komst á um leið. Það birti til.
„Ég gefst upp – ég næ henni ekki úr kápunni,“ sagði vindurinn um leið og hann klifraði upp á eitt fárra bjartra skýja og náði andanum. „Nú er komið að mér að reyna,“ sagði sólin um leið og hún silaðist geispandi fram undan hverfandi skýjunum og teygði úr hlýjum geislum sínum. Á fagurmótuðu enni konunnar sem gekk áfram veginn perlaði nú sviti. Hún leit til sólar og undraðist veðrabirgðin um leið og hún hneppti frá sér og fór úr kápunni.
„Skipti“ eru víða. Sam-, við- og um- eru allt ágætis forskeyti við „skipti“. Það að eiga samskipti er verðugt verkefni. Ég tel það til allra heilla að hafa sólina sem fyrirmynd í þeim „skiptum“.
3. Tóm
Ég heyrði sögu af manni sem eitt sinn langaði að hafa frumkvæði að því að minnast fallins samferðafélaga með því að reisa honum minnisvarða. Honum fannst tilhlýðilegt að minnisvarðinn yrði staðsettur á fæðingar- og uppeldisslóðum þess sem fallinn var frá. Varðinn var reistur af myndarskap. Hár og stílhreinn steinn sem fögur orð prýddu. Orðin endurómuðu manngildi og persónu þess sem minnst var. Frumkvöðullinn ákvað einnig að láta fylgja orðunum eina setningu neðst á steininum. Setning sú opinberaði frumkvæði frumkvöðulsins.
Hvers vegna „þurfti“ maðurinn að láta framtíðina vita að það var hann sem átti frumkvæði af minnisvarðanum? Var ekki minnisvarðinn þar með orðinn minnisvarði um tvær manneskjur?
Það virðist vera þannig með okkur mennina að við þurfum öll á ytri viðurkenningu að halda. Viðurkenningu á tilvist okkar. Spegilmynd frá samfélaginu sem fullvissar okkur um eigin tilveru og ágæti. Þessi þörf virðist þó mismikil og fer sjálfsagt eftir því hvernig sjálfsmynd okkar er dregin. Hvaða ramma og liti við höfum fengið í arf og hvernig penslinum var beitt í upphafi. Að hve miklu leyti tómið sem er samtvinnað hinni flöktandi innri fullvissu er fyllt. Hversu mikið tóm við berum í sjálfsmyndinni og hvað djúpt er á því.
Uppeldi okkar og samtími gefur okkur leiðbeiningar um hvernig tómið sé best „fyllt“. Markaðurinn eggjar okkur áfram með skilaboðum að okkur líði betur og innri fullvissu um eigið ágæti sé best „fullnægt“ með ytra efni. Trú okkar og skynsemi segir á hinn bóginn að innri fullvissa og þar með hamingja sé tryggð með því að fylla tómið innan frá. Að í tóminu grói kærleikur sem rétt nærður fylli holuna okkar innan frá og að kærleikurinn sé óháður hinu ytra efni.
Öll erum við breysk og búum við mismikla innri fullvissu og tóm. Við getum ályktað að allt líf okkar einkennist í grunninn að því að við viljum hámarka vellíðan um leið við viljum forðast vanlíðan. Við getum velt því fyrir okkur að hve miklu leyti við ráðum pensilstrokunum og hvort við getum eitthvað átt við þær eftir að þær hafa verið dregnar. Hvort við getum orðið samverkamenn að eigin sjálfsmynd.
Getum við einbeitt okkur að þvi að fylla tómið innan frá og þannig aukið innri fullvissu. Vera viss um að við séum nóg eins og við erum án of mikillar ytri viðurkenningar?
Hamingjugaldurinn ku vera sá
að holuna fylla skal innan frá.
Einbeita sinni að einföldum dyggðum,
elska og hvílast í fámennum byggðum. (hu)
4. Galdur
Ég er á Ströndum. Hér er kyrrð. Kyrrð umhverfis sem hefur áhrif á innri mann. Með tímanum samstillist ytri heimur við hinn innri. Skynjun verður skarpari, hugsanir og jafnvel tilfinningar koma á löglegum hraða og vitundinni gefst betra tóm til að ákvarða hvað gera skuli við þær, ef þá nokkuð. Hvort þær eiga að verða að orðum eða ekki. Hvort orðin skuli sögð eða hvort þau fái að líða hjá líkt og sjófuglarnir sem fljúga hér fyrir utan skjáinn. Tilfinningarnar eru aftur á móti galdur. Þær magnast upp í þessu umhverfi. Þegar þær fá tækifæri til að vera og blómstra.
Sagan segir að hér sé kraftur. Fjölkyngi. Á Galdrasetrinu á Hólmavík er sögur af krafti. Sögur af ljósi í ímyndaðri dimmu. Sögur af viðleitni og viðbrögðum þessarar þjóðar við eigin hugsunum og tilfinningum. Sögur af vanmætti í mætti og manngerðum kerfum sem telja sig höndla „sannleikann“ eins og hver kynslóð túlkar hann með því umboði sem við gefum honum. Þrátt fyrir „dimmuna“ sem óneitanlega umlykur sögurnar þá upplifði ég fallegar tilfinningar á setrinu. Lærði meira um Jón Guðmundsson lærða og aðra „ljósbera“ sem báru ljós í dimmunni. Manneskjur sem drógu stafi. Mótuðu orð og mögnuðu kenndir sem settu innri dimmu í samhengi og siguðu henni út.
Margt má læra af stöfum og orðum. Hvernig við túlkum birtingarform innri dimmunnar ogbjargráð okkar þjóðar við henni. Hvernig við leitum og leitumst við að skilja. Finnum reipi, haldreipi sem við erum ásátt um að spegli sameignleg gildi. Eitthvað sem við getum í grunninn verið sammála um að auðveldar tilvistina. Trú – sama hvaða brögð standa að baki hennar. Trú á birtuna. Innri birtuna.
Birtan grær í dimmunni. Í myrkrinu. Þrátt fyrir að umhverfi og sál okkar eigi nú að heita „upplýst“ þá er dimman enn til og út frá tvíhyggjunni má segja að hún verði alltaf nauðsynleg. Verði alltaf að vera til svo ljósið fái þrifist.
Innri upplýsing er dásamleg. Ljósið kviknar að innan og lýsir út um glyrnur okkar skepnanna. Kærleikurinn. Ljósið er kveikt. Eldurinn logar. Mögulegt er að hvetja hann með ytri efnum en fegurstur er hann sjálfsprottinn og þá þurfum við enga stafi eða orð. Hvorki af nútíma lyfseðlum né galdrablöðum. Hann einfaldlega logar í tóminu fyrir tilstill andans.
Í birtu galdursins bjarma þú sérð
sem brennandi í hjartanu situr.
Þar lýsandi engill ljóss er á ferð
sem lifandi kærleik þér flytur. (hu)
5. Sam
Forskeytið „sam“ er svo mikilvægt. Orð eins og sam-band, sam-staða, sam-ráð, sam-söngur, sam-hæfing, sam-fagna, sam-ræður, sam-lagast, sam-hljóða og sam-vinna eiga öll forskeytinu „sam“ jákvæðni sína og samhljóm að þakka. Jafnvel sam-ræði getur stuðlað að einhverju fallegu. Sennilega er sam-særi eitt fárra „sam“ orða sem er erfitt að ljá jákvæða merkingu. Forskeytið var mikilvægt þegar allt „hrundi“. Þá sátum við öll sam-an í súpunni. Þegar umræðan um siðrof stóð sem hæst fórum við í fjallgöngur með sam-eiginlegum vinum og mundum eftir því að við værum nú einu sinni ein sam-einuð þjóð. Sam-staðan var okkar. „Ég-ið“ dalaði í sálum okkar og „við-ið“ vann á. Við stóðum saman.
Nú er sem „ég-ið“ sé að vinna á aftur, á kostnað „sam“ og „við-sins“. Enda gengur þessi tilvist okkar öll í bylgjum og ekkert óeðlilegt við það. Það er hins vegar tíðni og taktur þessara sveiflna hér á Íslandi sem veldur mér hugarangri. Af hverju sveiflumst við svona ört? Það er náttúrlega fámennið, hugsa ég þar sem ég sit á Landsbókasafninu saman með öðrum. En það er auðvitað flóknara orsakasamband. Þrívítt og fjöldi orsakaþráða sem leika hlutverk. Svo sem þráður vanmáttarins. Þessarar þjóðar forni fjandi. Hann liggur sem þögull ormur undir þjóðinni og virðist stöðugt telja henni trú um að hún sé ekki nóg. Ekki nógu góð. Þurfi viðurkenningu að utan til að vera viss.
Ormurinn á sér m.a. birtingarmynd í þótta og minnimáttarkennd sem litar sjálfstraust okkar. Við sem fórum frá öðrum löndum og komum hingað. Stóðum saman í óeiningu okkar. Misstum valdið til þeirra norsku og dönsku. Áttum sam-eiginlega óvini. Náðum valdinu aftur að lokum. Tókum upp þjónustukerfi að utan og búum við það. En rofið og hrunið eggjaði okkur til endurskoðunar á grunnstoðum sam-félags okkar. En ormurinn? Hver á að endurskoða hann, nú þegar „ég-ið“ sem nærir hann virðist vera byrjað að vaxa aftur?
„Við“ – hver erum við? Það er ekki til „við-símar“ (we-phone). Aðeins „I-phone“ (ég-símar). Réttur einstaklingsins er á uppleið í öru sveiflunni okkar. Sam-ábyrgð hans, já, hún er eitthvað sem virðist of oft vera í öðru sæti, eiga undir högg að sækja. Ég hef rétt. Ég hef rétt í þessu sam-félagi. Ég má, ég vil, mig langar, mér finnst og ég held. En í raun veit ég ekki neitt. Get ekki verið viss um neitt og er háður sam-inu okkar. Takk fyrir okkur.
Megi Íslands vættir vanda
viðmót sitt til okkar handa.
Guð, ég bið að geyma, ei granda
gæfuinntak sam-an-band-a. (hu).
6. Vatn
Elva Gísladóttir, næringarfræðingur hjá Embætti landlæknis, skrifar árið 2014 leiðbeiningar til almennings með yfirskriftinni: „Vatn er besti svaladrykkurinn“. Þar segir m.a.: „Við búum við þau forréttindi hér á landi að geta drukkið vatn beint úr krananum og bragðgæðin eru mikil. Í vatni er enginn viðbættur sykur, engin sætuefni, engin sítrónusýra (E330), engin rotvarnarefni og engin bragðefni. [...] Stærstur hluti mannslíkamans er vatn og er nægilegt magn vökva nauðsynlegt fyrir eðlilega líkamsstarfsemi.”
Við erum vatn. Vatnið er formlaust en getur birst okkur í ólíkum myndum. Vatnið er alltumlykjandi og allt um kring. Vatnið er undirstaða framleiðslu okkar á orku sem við með hugviti umbreytum í ljós og hita, nútíma eld. Vatnið getur einnig sefað eld, nært jörð og litað loft. Vatnið er að mínu viti jafn mikilvægasta náttúruaflið.
Vatnið er eins og kærleikurinn. Það er umburðarlynt, leitar ekki sjálfs sín og finnur sér alltaf farveg. Vatnið er svo margt fyrir okkur. Það er misjafnt hvernig við mennirnir metum það. Allt háð birtingarmynd þess og aðstæðum. Vatn er þyrstum líf. Öldur geta ógnað lífi og jafnvel tekið það. Sjórinn, hinn vanmáttugi, altumvefjandi herra sem er þó í raun þjónn himintunglanna, er vatn. Árnar sem eru uppfullar af vatni geta verið viðsjárverðar og stöðuvötnin á fallegum sumardegi, stillt sem sálarspegill, minna okkur á hvernig vitund okkar getur verið; djúp og stillt eins og vatnið.
Við Íslendingar metum heitt jarðvatnið mikils. Það nærir líf okkar. Sundlaugarnar eru athvarf okkar. Þar hreyfum við okkur. Leiðum innri orku okkar í vatnið sem tekur við henni og stillir alla okkar vitund. Að loknum góðum sundspretti, setjumst við í heitan pott og látum líða úr okkur. Háræðarnar þenjast út og vellíðan og höfgi færist yfir meðvitund okkar. Nú er móðins að skella sér í kalt vatn í sundlaugunum og stunda jafnvel víxlböð. Að umvefja sig heitu og köldu vatni til skiptis. Menn sem reynt hafa eru sammála um að slíkt hafi góð áhrif á lundarfar, „herði“ líkamann og geti styrkt ónæmiskerfið.
Svo er það mannsvatnið, tárin. Eitt birtingarforma tilfinninga okkar. „Rúðupiss sálarinnar“, eins og Ragnar Helgi Ólafsson skáld kemst að orði í einu ljóða sinna í verðlaunuðu ljóðabókinni: Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum.
En vatnið þarf ekki að finna sig, það bara er og verður. Vatnið er forréttindi. Vatnið er forsenda.
Mynd af vatni
Vatnið breiðir vitund kalda,
virkjar málm og magnar raf.
Hvetur líf úr faldi fjalla,
færir straum um hauð og haf.
Í borg og sveit ljær vatnið varma,
veitir unað, elur bjarma,
lýsir tár á steinum hvarma. (hu)