Greinar:

Vill Ísland í samstarf við alþjóðlegt fyrirtæki sem rannsakar lækningamátt hugvíkkandi efna - Viðtal og umfjöllun í Morgunblaðinu 4. janúar 2022

Börn thors í hlutverki sínu í verkinu “vertu úlfur”

Héðinn Unnsteinsson er mörgum kunnur eftir að leikritið Vertu Úlfur, sem fjallar um hann sjálfan, sló í gegn á sviði Þjóðleikhússins.

Höfundur orðsins „psychedelic“ (skynörvandi skv. íslenskri orðabók) var enski geðlæknirinn Humphry Osmond sem var meðal þeirra frumkvöðla sem byrjuðu rannsóknir með efni á borð við LSD og psilocybin á miðjum fimmta áratug síðustu aldar. Orðið psychedelic setti hann saman úr grísku orðunum psyche, sem þýðir sál, og delos sem lýsir sögninni „að sýna“. Um tíu árum eftir að Osmond og félagar höfðu fundið út hvaða skammtastærðir af efninu gáfust vel, og hvernig best væri að hátta meðferðum, upphófust lofsöngvar geðlækna og sálfræðinga um gagnsemi þeirra. Þær skiluðu áberandi árangri þegar unnið var gegn fíkn og þunglyndi, og í líknandi meðferð en fram að því hafði reynst þrautasamt að milda slíkar þjáningar. Lyfin voru svo áfram notuð við meðferðir, þróuð og rannsökuð til ársins 1970, en þá var notkun þeirra með öllu hætt af ástæðum sem síðar verður vikið að.

„Þú ert ekki kvef þó að þú sért með kvef“

Á undanförnum árum hafa orðið viðhorfsbreytingar gagnvart geðrænum áskorunum og sjúkdómum í samfélaginu, sem og hvers kyns andlegum kvillum og áskorunum. Fleiri fá greiningar og alltaf bætist við fólk sem tekur lyf gegn vanlíðan. Dæmi um greiningar eru áfallastreita, ofvirkni og athyglisbrestur, félagskvíði, einhverfuróf, geðhvörf og sitthvað fleira. Kvillarnir og sjúkdómarnir eru að mestu metnir út frá því hvernig fólk spjarar sig í einkalífi, á vinnumarkaði og í skóla, og/eða hversu vel eða illa því líður frá degi til dags eða til lengri tíma, en þetta getur verið mjög misjafnt því greiningaskalinn er breiður.

Sem manneskjur mótum við okkur sjálfsmynd út frá mörgum mismunandi þáttum. Við tengjum sjálfsmyndina m.a. við kynhneigð okkar, stjórnmálaskoðanir, stöðu á vinnumarkaði, vini, fjölskyldu og sitthvað fleira. Á undanförnum árum hefur það færst í vöxt að fólk sem hefur fengið greiningu skilgreini persónuleika/sjálfsmynd sína út frá henni, þótt það sé misáberandi. Héðinn telur að þetta sé ekki endilega gott.

„Þú ert ekki kvef þó að þú sért með kvef. Þó að læknir hafi greint Jón með geðklofa þá ER hann ekki geðklofi,“ segir Héðinn. „Um daginn hitti ég unga konu sem sagðist vera með ódæmigerða einhverfu og ADHD. Ég spurði strax „bíddu... en hvað heitirðu?““ segir hann og bætir því við að orðræða frávika megi ekki lita samfélag okkar um of. „Það þarf að taka öðruvísi á þessu því fordómar og mismunun eru enn við lýði og viðmót alls samfélagsins til viðkomandi einstaklings litast af þeim, sem og hugmyndir einstaklingsins um það hver hann eða hún er,“ segir Héðinn og tekur dæmi af sjálfum sér: „Ég fór þrisvar sinnum í maníu, tvisvar á tíunda áratugnum og einu sinni árið 2008, svo var allt í lagi þess á milli, samt kom þetta niður á bæði einkalífi mínu og atvinnutækifærum. Ég eignaðist kannski kærustu og allt í einu var móðir hennar komin með áhyggjur af sambandinu. Ég sótti um starf sem ég var fullkomlega hæfur í en fékk ekki þegar einhver fékk veður af því að ég hefði einhvern tímann glímt við veikindi. Veikindi, sem mér telst til að liti um átta prósent af lifuðum árum. En hvað með hin 92 prósentin, á merkimiðinn við þau líka? Þetta er ósanngjarnt. Greiningarnar eru huglægt mat einnar manneskju á huglægu ástandi annarrar manneskju og þetta hefur skilað sér í flokkunarkerfi greiningarfræðanna,“ segir Héðinn, sem tengir væðinguna einnig við hagkerfið og tekur mjög nærtækt dæmi um hvernig jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiðir skólum ákveðnar fjárhæðir eftir því hversu mörg börn í viðkomandi skóla hafa fengið greiningu. „Þá er það allt í einu orðinn hvati fyrir rekstraraðila skólans að sem flestir nemendur séu greindir með eitthvað, svo hægt sé að fá meiri peninga úr jöfnunarsjóðnum til að hjálpa til við rekstur skólans! Þetta er orðið viðsnúið. Kapítalíska hagkerfið er farið að græða á því að fólk sé talið í ójafnvægi og það er reyndar ekki lítið, því velta geðlyfja í heiminum árið 2020 var átta hundruð og fimmtíu milljarðar dala. Það eru rúmlega hundrað þúsund milljarðar króna.“

Stofnanavæðing þess að vera „öðruvísi“

Eftir því sem greiningarviðmiðum fjölgar vakna eðlilega spurningar um hverjir það eru sem hagnast raunverulega á þessu. Þetta eru stórar spurningar. Kristján Þór Sigurðsson, aðjúnkt við mannfræðideild Háskóla Íslands og þáttastjórnandi í mannfræðihlaðvarpinu Röddum margbreytileikans á Kjarnanum, benti blaðamanni á að skoski geðlæknirinn R.D. Laing hefði á árum áður haldið því fram að geðsjúklingar, einkum geðklofasjúklingar, væru ekki sjúkir heldur væri það samfélagið sjálft.

„Hinn virti heimspekingur Michel Foucault rakti líka sögu skilgreininga á geðsjúkdómum, og sjúkdóma -og stofnanavæðingu þess að vera „öðruvísi“ eða að vera „ekki-normal“, og þá heimild er fróðlegt að lesa,“ segir Kristján Þór.

„Það er í raun og veru ekki sérlega langt síðan þessi nálgun varð stofnanavædd og þröngvað upp á þau sem „fitta“ ekki alveg inn. Í mörgum „framandi“ samfélögum heimsins er litið á þau sem skera sig úr á þennan hátt sem allt að því heilagar persónur, sem hafa fengið eiginleika sína að gjöf frá æðri máttarvöldum og geti þar með hjálpað hinum, þessum „normal“, við að leysa alls kyns vandamál,“ útskýrir Kristján og á þar til dæmis við shaman-lækna og aðra sem hafa sérstaka tengingu við veröld hugans og andans og nota ýmsar jurtir í lækningum sínum, meðal annars áðurnefnd hugvíkkandi efni, þar á meðal psilocybin, en það efni má finna í um tvö hundruð tegundum af sveppagróðri sem vex vítt og breitt um heiminn.

Útskúfun óæskilegra hópa með umdeilanlegum lögum

Vestrænar rannsóknir á lækningamætti psilocybins, og sambærilegra hugvíkkandi efna, eru þó ekki nýjar af nálinni eins og áður segir því efnin voru notuð við lækningar í um tvo áratugi á síðustu öld. Svo var það árið 1970 að Richard Nixon sagði fíkniefnum stríð á hendur og um leið var lokað á allar rannsóknir því lögin bönnuðu þær. Hluti af stríðsplani Nixons var að flokka psilocybin, LSD, og sambærileg hugvíkkandi efni, sem ávanabindandi fíkniefni í fyrsta flokki og viðurlög við neyslu og sölu þess var að lágmarki fimm ára fangelsisdómur og tapaður atkvæðisréttur til kosninga. Þetta kom sér vel fyrir forsetann því hipparnir, sem höfðu orð á sér fyrir að nota þessi efni í skemmtitilgangi, voru einnig í fremstu víglínu þegar kom að því að andmæla stríðinu gegn Víetnam.

Þetta uppátæki Nixons var sannanlega ekkert nýdæmi. Þegar félagsvísindafólk byrjaði fyrir alvöru að kanna sögu lagasetninga í kring um hvers konar lyf kom á daginn að mörg refsilög af þessu tagi hafa verið notuð sem tól til að einangra „óæskilega hópa“ úr samfélaginu. Þau fyrstu voru samþykkt árið 1874 í San Francisco þegar til stóð að „hreinsa“ kínverska innflytjendur úr borginni. Kínverjar voru þá notaðir sem ódýrt vinnuafl, en samtímis voru þeir álitnir til vandræða þar sem menning þeirra og siðir ógnuðu gildum hvítra innflytjenda frá Evrópu, sem hafa jú og höfðu völdin. Þegar kom að því að ekki var lengur þörf á innfluttu vinnuafli var brugðið á það ráð að keyra í gegn lög sem bönnuðu ópíumreykingar á kínverskum samkomustöðum, en þá var almennt átt við litlar búllur þar sem menn lágu afvelta á bak við rauð tjöld og reyktu ópíum sem var tískulyf þess tíma. Á sama tíma var þó öllum frjálst að flytja ópíum til landsins, rækta það, selja og neyta hvar sem var annars staðar, enda Kínverjar ekki eini þjóðfélagshópurinn sem notaði þetta. Það sem aðgreindi neysluvenjur Kínverjanna var að þeir hittust á búllum til að fara saman í vímu, svona svipað og fólk gerir á krám og pöbbum. Í hnotskurn þá þjónuðu fyrstu fíkniefnalögin þeim skýra og afmarkaða tilgangi að veita lögreglu heimild til að ryðjast inn á samkomustaði innflytjenda og handtaka þannig og fangelsa fjölda manns úr „óæskilegum hópi“ á einu bretti. Smala þeim í fangelsin svo að segja. Frá sjónarhóli andstæðingsins geta svona lög verið klók leið til að leysa erfið vandamál og hagnast í leiðinni og því miður hefur henni ósjaldan verið beitt, en þegar hlutirnir eru settir í víðara samhengi má greina að hagur heildarinnar hefur ekki endilega alltaf verið leiðarljósið í þessum efnum.

Þriðjungur þunglyndissjúklinga nær engum bata

Nú hafa heilbrigðisyfirvöld í nokkrum löndum og ríkjum Bandaríkjanna veitt rannsóknarmönnum heimildir til að rannsaka áhrif og virkni hugvíkkandi efna í meðferð við andlegum sjúkdómum, sér í lagi alvarlegu þunglyndi (eða TRD, treatment resistant depression), en það er sú gerð þunglyndis sem ekki hefur tekist að meðhöndla með hefðbundinni lyfjagjöf. Rannsóknirnar hófust fyrst aftur árið 1996, þegar lyfjastofnun Bandaríkjanna, FDA, samþykkti undanþágubeiðni vísindamanna við John Hopkins-háskóla um að fá að taka upp rannsóknir á virkni hugvíkkandi efnisins DMT. Rannsóknirnar hafa staðið síðan (í minna eða meira mæli eftir fjármagni), en á allra síðustu árum hefur þeim fleygt ört fram og niðurstöðurnar lofa ákaflega góðu.

Þegar Héðinn Unnsteinsson heyrði fyrst af þessum rannsóknum fyrir um fjórum árum setti hann sig í samband við fyrirtækið Compass Pathways, en það er meðal þeirra sem eru í fararbroddi á þessu sviði. Starfsemi þess hefur staðið í um tuttugu ár en tilurð þess að fyrirtækið var stofnað má rekja til persónulegrar reynslu stofnendanna af áhrifunum sem alvarlegt þunglyndi hefur í för með sér fyrir sjúklinga og aðstandendur. „Talið er að meira en 320 milljónir einstaklinga í heiminum glími við alvarlegt þunglyndi og um þriðjungur þeirra, eða 100 milljónir, nær engum bata af þeim meðferðum sem nú eru í boði,“ segir Héðinn.

Þegar þunglyndislyf gera illt verra

Í síðasta hefti tímarits Geðhjálpar er viðtal við Georg Goldsmith, framkvæmdastjóra og einn stofnenda Compass Pathways, en hann var nýlega staddur hér á landi. Í viðtalinu segir hann m.a. frá því hvernig barátta stjúpsonar hans við þunglyndi varð til þess að hann ákvað að helga sig að nýsköpun á sviði meðhöndlunar við geðrænum vandamálum. Í viðtalinu lýsir Goldsmith því hvernig stöðugt var skrifað upp á fleiri lyf fyrir soninn. Lyf sem aldrei virkuðu og gerðu aðeins illt verra.

„Hann var á þunglyndislyfjum sem höfðu aukaverkanir og lyfin voru farin að skapa fleiri vandamál en upphafleg veikindi hans. Þetta gerist allt of oft þegar fólk þjáist af þunglyndi,“ segir Goldsmith, sem er menntaður sem klínískur sálfræðingur og vitsmunasálfræðingur. Hann segir að sá mikli árangur sem hingað til hefur náðst með psilocybin-meðferðum hafi komið mörgum á óvart enda framfarirnar hraðar og varanlegar í mörgum tilfellum.

Afurðin sem hefur skilað sér úr rannsóknum vísindamanna við John Hopkins, og aðila á vegum Compass Pathways, er lyf sem kallast COM360 og inniheldur m.a psilocybin. Niðurstöður hafa sýnt að blönduð meðferð, þar sem lyfið er notað í bland við samtalsmeðferð, leiðsögn og eftirfylgni, meðal annars í gegn um snjalltækni, hefur reynst áhrifarík í meðhöndlun við alvarlegu þunglyndi. Engar alvarlegar aukaverkanir hafa komið í ljós og árangurinn skjótur og sýnilegur. Þegar þetta er skrifað er tveimur hlutum rannsóknar lokið og sá þriðji og síðasti er fram undan. Compass Pathways hefur verið skráð á hlutabréfamarkað Nasdaq og um 120 manna starfshópur á vegum fyrirtækisins sinnir rannsóknunum í tíu löndum. Fjármagnið sem nú hefur safnast til rannsóknanna er 5-600 milljónir bandaríkjadala eða um 70 milljarðar íslenskra króna. Hinn 13. desember sendi fyrirtækið frá sér fréttatilkynningu þar sem greint er frá niðurstöðum úr fyrstu tveimur fösunum. Þær verða lagðar fyrir lyfjastofnun Bandaríkjanna fljótlega á þessu ári en stefnt er að því að kortleggja þriðja fasann í samvinnu við stofnunina.

Kanna samstarfsvilja íslenskra stofnana og fyrirtækja

Héðinn segir Compass Pathways binda vonir við að Ísland bætist í hóp þeirra landa sem standa að rannsóknunum en til þess þurfi bæði samþykki heilbrigðisyfirvalda og samvinnu. „Nú liggja fyrir tvö atriði. Fyrst þurfa þeir að vita hvort Ísland hefur áhuga á að taka þátt í þriðja fasa rannsóknanna, en til að svo megi verða þarf ákveðin undirbúningsvinna að eiga sér stað fyrst,“ segir Héðinn og bætir við að nú standi yfir vinna hjá heilbrigðisráðuneytinu um mótun reglugerðar sem miðar að því að leyfa notkun efnanna í rannsóknum hér á landi. „Hópur frá landlæknisembættinu og fleiri aðilum byrjaði að hittast í október sl. og síðast skildist mér að vinnunni yrði lokið í upphafi árs 2022. Þá stendur það upp á heilbrigðisráðherra að taka afstöðu. Ef hann innleiðir reglugerðina er næsta skref að senda út skýrslu um stöðu á meðferðum við alvarlegu þunglyndi hér á landi þannig að þau hjá Compass Pathways geti í kjölfarið tekið ákvörðun um hvort það sé áhugi fyrir því að bæta Íslandi við sem ellefta landinu á listann,“ segir Héðinn og útskýrir að um 3.000 Íslendingar séu greindir með alvarlegt þunglyndi sem ekki hefur tekist að lækna eða milda með hefðbundnum leiðum.

„Það er ýmislegt sem þeir þurfa að fá á hreint, til dæmis hvernig snjalltækni er notuð í meðferðum hérna og margt fleira. Það sem vinnur með okkur við að safna þessum gögnum saman er að Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu þarf þessar upplýsingar líka í samhengi við fjárfestingu í TMS-tæki sem hefur reynst vel við meðhöndlun þessa sjúkdóms en þau vonast til að geta byrjað að nota tækið á þessu ári.“

Milljarðabransi og mikilvægi þess að ná forskoti

Allar niðurstöðurnar úr öðrum fasa rannsóknarinnar eru það góðar að tímarit á borð við Forbes og Wall Street Journal hafa séð tilefni til að taka þetta til umfjöllunar. „Þetta er um átta hundruð og fimmtíu milljarða dala bransi í heild, og eins og við vitum keyra peningar heiminn áfram,“ segir Héðinn, sem hefur þegar fundað um málið með Lyfjastofnun, formanni Geðlæknafélagsins, Sálfræðingafélagsins, Kára Stefánssyni og fleirum. Draumur hans er sá að Ísland nái forskoti á þessu sviði þar sem það liggur fyrir að svona meðferðarúrræði verði hluti af almennum lækningum innan fárra ára. „Með því að taka þátt í þriðja hluta rannsóknarinnar, þótt ekki væru nema 40 manns, erum við strax búin að ná forskoti á aðrar þjóðir,“ segir hann. „Við erum nú í umbreytingafasa þar sem bæði leikmenn og einstaka fræðingar eru byrjaðir að bjóða meðferðir með hugvíkkandi efnum en þegar ekkert er uppi á borðum, og ekkert eftirlit með þessu, er auðvitað hætta á bakslagi ef eitthvað kemur upp á. Þótt formlegar rannsóknir á þessu sviði séu langt komnar í mörgum löndum þá litast margt enn af vanþekkingu hérna, en því má breyta. Ef samstarfssamningur næst við Compass Pathways um að þróa meðferðina e.t.v. í samvinnu við Háskólann, DeCode eða aðrar öflugar stofnanir, þá getum við haft jákvæð áhrif á framvindu mála og verið á undan í því að móta örugga umgjörð um hvernig að þessum áhrifaríku meðferðum er staðið. Ég er sannfærður um að það muni skila sér,“ segir Héðinn Unnsteinsson að lokum.



Allt eins og það á að vera? - Viðtal í Morgunblaðinu 5. júlí 2020

Allt eins og það á að vera?

Skoski geðlæknirinn R.D. Laing setti fram þá kenningu á 7. áratugnum að geðveiki væri ferðalag uppgötvunar sem gæti leitt einstaklinginn á svið æðri vitundar. Endastöðina kallaði hann „hypersanity“, sem gæti útlagst sem ofurnæmni á íslenskri tungu, og ræddi í bók sinni The Politics of Experience and the Bird of Paradise sem kom út árið 1967.

Neel Burton, geðlæknir og heimspekingur, las bókina og kynnti sér svo lífshlaup geðlæknisins Carl Jung. Jung var lengi í geðrofi og er hann kom úr því var hann sannfærður að geðrofið hefði fært honum visku. Hann gaf út bók á síðasta ári um málið, Hypersanity - Thinking Beyond Thinking.

Þó Jung hafi verið sagður óeðlilegur af samferðamönnum sínum öðlaðist hann annarskonar sýn á heiminn, segir Burton. Bæði geðrof og ofurnæmni setja okkur utan þess eðlilega en ofurnæmni veldur ekki vanlíðan og fötlun líkt og geðrof heldur er frelsandi og hvetjandi. Því miður hræðist fólk þó menn eins og Jung.

Þeir sem séu venjulegir(ef það er til) þjáist af því að ná aldrei að verða ofurnæmir; hafa afmarkaða heimsýn, óskilgreinda forgangsröðun og þjást af stressi, kvíða og sjálfsblekkingu. Ofurnæmir festast ekki í viðjum sjálfsins, eru ekki fangar í sínu eigin lífi. Ekki þarf að missa geðheilsu sína til að verða ofurnæmur enda fjöldi sem hefur gert slíkt líkt og Dalai Lama, Nelson Mandela og fleiri, að sögn Burton.

Hvað eru ranghugmyndir?

„Þegar ég fór í læknisfræði hér á Íslandi upplifði ég þetta ofurnæmi,“ segir Héðinn Unnsteinsson, formaður Geðhjálpar. „Eða ofboðslega næmni og viðkvæmni sem endaði í oflæti. Það var svo gaman að vera til og ég hlakkaði svo til að vakna að það tók því ekki fyrir mig að fara að sofa.“

Þetta var árið 1992 þegar Héðinn var 22 ára og hafði komið heim úr námi frá Bandaríkjunum. „Hraðinn var orðinn svo mikill. Þegar bætist við svefnleysi og að maður borði ekki nokkra daga fer maður í oflæti,“ segir hann en oflæti er það sem oft er kallað manía og fylgir geðhvörfum.

„Þegar þú sefur ekki fer það að hafa áhrif á hugsunaferla þína.“ Hann fór að draga langsóttar ályktanir af bílnúmerum, tölurnar gáfu til dæmis til kynna hvert hann ætti að fara. „Það fer að verða skörun í hugsanaferlum. Þá er sagt: „Þú ert kominn með ranghugmyndir.“ En eru þetta ranghugmyndir? Eru þetta ekki bara mínar hugmyndir, sem passa bara ekki inn í skapalón rökrænna vera?“ segir Héðinn.

Afleiðingar, ekki orsakir

Tveimur árum síðar, 1994, fór Héðinn aftur í oflæti. Þá fékk hann greiningu: Geðhvörf. „Það er uppúr því sem ég byrja að skipta mér að geðheilbrigðismálum. Ég skrifaði bækling með geðlækni um nefnda geðröskun sem kom út árið 1995. Ég fylltist mikilli löngun til að hafa áhrif á skoðun, skilning, afstöðu og ákvarðanir í málaflokknum. Mér fannst ég ekkert frábruðnari mínum félögum þó ég hafi upplifað þetta ástand.“

Á þessum tíma fann Héðinn fyrir miklum fordómum vegna veikinda sinna. „Helmingur kunningja hætti að tala við mig. Það voru fordómar og mismunun á grundvelli engra hlutlægra raka.

Aðeins ein alþjóðleg rannsókn hefur verið gerð á fordómum á gagnvart einstaklingum sem glíma við geðrænar áskoranir á Íslandi. Hún fór fram á árunum 2006 og 2007 og voru niðurstöðurnar birtar 2009. Þar komu í ljós umtalsverðir fordómar. Héðinn segir þörf á nýrri rannsókn.

Annað sem stuðaði Héðinn voru útgjaldaliðir heilbrigðiskerfisins. „Aðalliðirnir eru meðferð og endurhæfing. Þeir fá um 97% af heildarútgjöldum til heilbrigðismála. Þetta er heilbrigðiskerfið okkar en þetta er í raun veikindakerfi.“ Því er ekki unnið eins mikið með orsakir og þörf er á. „Við erum mjög afleiðingatengd. Við erum oftst að takast á við afleiðingar í stað þess að vinna með orsakaþætti.“

Gríðarleg fjölgun greininga – Afsjúkdómavæðing?

Um 150 ár eru liðin síðan fyrst var byrjað að greina geðsjúkdóma. Þá voru þeir sex talsins. Síðan þá hefur þróunin verið sú að greina sífellt fleiri með geðsjúkdóm. Handbók Sambands bandarískra geðlækna (DSM) sem síðast kom út árið 2013 (DSM-5) inniheldur um 600 greiningar í heild, að sögn Héðins.

Hann setur spurningamerki við að hægt sé að greina svo marga sjúkdóma þegar það er í raun enginn hutlæg leið til þess; öll greining sé huglæg. „Það er engin röntgenmynd, engin þvagprufa eða blóðprufa. Það er ekkert hlutlægt. Svolítið eins og að ætla sér að vigta 1 kílógramm af efni með loftvog.“

Markaðs- og fjármagnsöflin hafa ákveðna hagsmuni að sem flestir glími við ójafnvægi – séu skilgreindir veikir. Það myndast því þversögn þar sem markmið kerfisins er að fólk nái bata en ákveðin hvati er til að halda fólki veiku. Því virðast fleiri og fleiri falla undir hatt geðsjúkdóma enda huglægt mat hver það geri. Héðinn segir gífurlega fjármuni í geðlyfjaiðnaðnum sem skapi að hluta þennan hvata.

Samkvæmt rannsókn dr. James Davis frá Roehampton háskóla í London á þróun DSM, byggðri á viðtölum við þau sem tóku þátt í samsetningu handbókarinnar eru dæmi um að margar greiningar geðsjúkdóma t.d þær 80 sem bættust þá við fyrrnefnda handbók í útgáfu frá árinu 1980 hafi gert það án þess að hafa vísindalega stoð á bak við sig. „Og eins og einn viðmælandi hans lýsti huglægninni: „þetta var svolítið eins og að nokkrir guðfræðingar kæmu saman í herbergi og ákvæðu að Guð væri til án þess að geta fært sönnur á það.“

Sjúkdómavæðing venjulegs lífs kemur í kjölfar þessa. „Sorg er orðin geðröskun; „bereavement disorder“. Það er orðin ofboðsleg fjölgun greininga. Meira að segja æðsti „kardináli“ og ritsjóri DSM-4, Allen Francis féll allur ketill í eld er DSM-5 var í þróun og skrifaði bókina; „Saving Normal“ gegn sjúkdómavæðingu geðsins. Við þurfum e.t.v. að fara huga að „afsjúkdómavæðingu““.

Að einhverju leiti og vafalítið má tengja við þessa þróun mikla fjölgun örorkubótaþegum hér á landi. „Árið 1990 voru þeir 7506. 2020 eru þeir 21.979. Þetta er 190% fjölgun á sama tíma og þjóðinni hefur fjölgað um 43% á þessum árum. Ég get ekki skýrt þetta.“

37% örorkubótaþega búa við geðfötlun og hefur vaxið að stærð og hlutfalli af heild, aðrir eru þroskahamlaðir og líkamlega fatlaðir. „Hópur geðfatlaðra er eini hópurinn hvers fötlun getur orðið að fullu afturkræf. Það eru fjölmörg dæmi þess að fólk hafi farið á örorkubætur en unnið sig útúr því og orðið virkir aftur,“ segir hann.

Mikilvægast að anda

„Þetta var stóra hugmyndin sem ég var með á þessum árum, 1998 og 1999. Þá byrjuðum við á verkefni sem kallaðist Geðrækt og fór fram árin 2000 til 2003 og fókuseraði á heilsueflingu og forvarnir,“ segir Héðinn.

Hann hélt svo til Bretlands í meistaranám í stefnugreiningu og stefnumótun en hann hafði áður lokið, íþróttakennaranámi og grunnnámi í kennslufræðum. Í kjölfarið starfar hann hjá WHO, Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, fyrst sem starfsnemi og síðar sem sérfræðingur í Danmörku. „Það var mjög lærdómsríkt.“ Hann ferðaðist um allar trissur og kynnti sér meðal annars aðstæður geðsjúkra í Austur-Evrópu. „Það var oft hræðileg upplifun. Fólk var jafnvel geymt í búrum.“

Eftir tímann hjá WHO starfaði Héðinn hjá Heilbrigðisráðuneytinu, síðar Forsætisráðuneytinu og nú síðast hjá Capacent.

Hann hætti að taka frumefnið lithíum á árunum 2005 til 2008 sem varð til þess að hann fór í oflæti árið 2008 eins og hann lýsir vel í bók sinni frá árinu 2015, Vertu úlfur - Wargus esto. Ráðgert er að leikrit verði sett upp í Þjóðleikhúsinu eftir sögu bókarinnar.

Héðni finnst mikilvægt að einblína á það sem fólk eigi sameiginlegt, ekki það sem skilur það frá öðrum, þegar kemur að geðheilbrigði. Hann leggi því áherslu á sömu þætti og aðrir til að heilbrigði sínu. „Það er mataræði, svefn, hreyfing, hugleiðsla. Það er jóga, klárlega. Það mikilvægasta sem maður gerir í lífinu er að anda,“ segir hann.

„Svo geri ég heiðarlega tilraun til þess að tileinka mér aukna viðbragðsþurrð í heimi fullum af áreitum. Lífið er eitt viðbragð, við erum alltaf að bregðast við. Ég reyni að velja viðbrögð og minna mig stöðugt á mikilvægi æðruleysis.“

Héðinn reynir að mikla ekki fyrir sér hlutina, í stóra samhenginu skipti þeir minna máli. „Hlutirnir virka oft stórir á því augnabliki sem þeir gerast.“

Sjálfsvígstilraun dugi ekki  

Fyrir nokkrum árum var réttargeðdeild landsspítalans færð frá Sogni yfir á Kleppsspítala. „Við viljum sjá Kleppspítala lokað í fyllingu tímans. Að endurhæfing fólks með geðraskanir sé flutt í meira mæli út í samfélagið, ekki að hún eigi sér aðeins stað inn á spítala. Afstofnunarvæðingin þarf að ganga lengra,“ segir Héðinn og vill að notendur komi meira að þróun og útfærslu þjónustunnar. Þróun geðheilbrigðisþjónustunnar undanfarna áratugi hefur verið að nær öllu leiti á forsvari þjónustuveitenda en ekki þjónustuþega og aðstandenda – á það viljum við hafa áhrif. Hann vill sjá minni aðskilnað á geðdeildum hér á landi og aukið vægi mennskunnar.

Héðni finnst umræða um þetta mikilvæg því á nýjum Landsspítala sé ekki alfarið gert ráð nýjum strúktúr í kringum geðheilbrigðisþjónustuna. „Það verður sameiginlegur móttökukjarni þar sem öll bráðamóttaka verður og vonandi næst svo að framþróa legu-, dag, og göngudeildarþjónustu í samráði við notendur á næstu árum í öðrum og þriðja áfanga nýs spítala.“

Áætlað er að geðheilbrigðisþjónusta sé 30% af umfangi heilbrigðiskerfisins í heild en útgjöld til málaflokksins eru aðeins rúmlega 11% af útgjöldum kerfisins. Af eigin raun segist Héðinn upplifa mikinn mun á þjónustu geðdeilda og annarra deilda, svosem handlækningadeilda. Þar hefur LSH tækifæri á þekingartilfærslu.

„Það er mikið kvartað undan því að fá ekki þjónustu. Fólk þurfi jafnvel að eiga að baki tvær til þrjár sjálfsvígstilraunir og það sé jafnvel ekki nóg til þess að fá innlöng. Það þarf einhvern veginn að bæta þjónustu bráðamóttöku geðdeildar og það þarf að efla heilsugælsuna svo það þurfi ekki allir að fara upp á geðdeild.“

Héðinn segir fagnaðarefni að samþykkt hafi verið á Alþingi að sálfræðimeðferð falli undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga. „Þó Bjarni [Benediktsson] hafi sagt að það eigi eftir að finna peningana í það.“

Má beita nauðung?

Héðinn er ekki hrifinn af því viðhorfi að þeir sem glími við geðraskanir séu ofbeldisfullari en aðrir. „Það eru engar rannsóknir sem sýna fram á þetta.“

Lögræðislögin kveða á um nauðung og þvingun frjáls manns á sjúkrahúsi. Réttlæting þess er í grunninn komin frá breska heimspekingnum John Stuart Mill sem sagði að það væri í lagi að svifta einstakling frelsi sínu, þó hann hafi ekkert gert af sér, ef hann sé hættulegur sjálfum sér eða öðrum. „En hver ætlar að meta það? Þetta „skaðalögmál“ grundvallar alla löggjöf Vesturlanda. Læknum var gefið það vald að geta úrskurðað eða ákveðið hver er hættulegur sjálfum sér eða öðrum.“

Í dag hefur lögunum verið breytt að einhverju leyti og faglegra ferli að baki frelsissviptingu en vandamálið stendur eftir: Hægt er að svifta fólk frelsi með geðþóttaákvörðun. Þetta vill Geðhjálp hafa áhrif á. „Þetta er grafalvarlegt mál.“

Héðinn vill að prófað verði að beita ekki nauðung eða þvingun í kerfinu hér á landi í þrjú ár, þvingunarlaust Ísland, og sjá hver árangurinn verður. „Þá verður talað á fjölda ráðstefna 10 eða 20 ár fram í tímann hvað Ísland hafi gert frábæra hluti hérna. Afhverju má ekki setja þetta fram sem tilraunaverkefni?“

Opin fyrir breytingum

Héðinn vill að snúið verði við þeirri þróun sem rædd var hér á undan; að einblínt sé í sífellt meira mæli hvað skilji okkur að. Að það þurfi að greina fleiri og fleiri með geðvandamál. „Það er áhugverð rannsókn í gangi núna hjá hollenskum lækni sem heilbrigðisráðuneytið og landlæknisembættið hafa gert samning við um tilraunaverkefni í Reykjavík og á Austurlandi. Hún er að heilsugreina fólk og því búin að snúa kerfinu að hluta við. Kerfið hennar snýst um styrkleika þína, þeir eru greindir en ekki einkenni ójafnvægis.

Ég held að þessi þróun sé mjög áhugaverð. Það mun aldrei verða annað hvort eða. Það mun líklega verða hvorutveggja. Ef unnið er meira með styrkleika þá verður ekki þessi hvati að fara beint í greiningu á vandamáli. Það mun taka langan tíma að breyta þessu. Þetta er svona eins og að snúa olíuskipi. Það eru svo miklir hagsmunir í þessu kerfi og þetta er svo löng saga.“

Ef fólk horfir 50 ár aftur í tímann nú og skoðar aðferðir í geðlækningum þess tíma hristir það höfuðið margt hvert. Héðinn segir það sama gæti verið uppi á teningnum eftir önnur 50 ár. „Þeir munu hugsa: „Hvað voru þeir að gera þarna 2020?“ Það er ekkert endanlegt í þessu. Viðleitni okkar og aðferðir eru í stöðugri þróun og við þurfum að vera opin fyrir breytingum. Aðlaga að breyttum tímum og átta okkur á að vísindin á bak við þau eru huglæg og því takmörkuð.“

Ný lyf á leiðinni?

Héðinn er bjartsýnn á notkun vitundarvíkkandi efna til að stuðla að geðheilbrigði. Bann var sett við slíkum efnum í Bandaríkjunum 1971 en rannsóknir leyfðar aftur um aldamótin og hafa rannsóknir síðustu ára lofað góðu, sérstaklega á efninu psilocíbin sem finnst í mörgum tegunda sveppa. Hefur efnið verið notað til að hjálpa fólki sem glímir við þunglyndi, kvíða og jafnvel fíknivanda.

22. október n.k. kemur dr. Robin Carhart-Harris, vísindamaður frá Imperial College London, til landsins á vegum Geðhjálpar og talar um þessa þróun á málþinginu Liggur svarið í náttúrunni? Sem haldið verur í sak Íslenskrar erfðagreiningar. „Mörg okkar erum á því að þetta sé næsta stóra lyfjaframförin í þessum málaflokki. Við viljum opna þessa umræðu á Íslandi.“ segir Héðinn en notkun vitundarvíkkandi efna mætir skiljanlega nokkurri tortryggni.

Héðinn er uggandi yfir þeirri stöðu sem gæti komið upp á vinnumarkaði í haust. Þegar uppsagnarfrestur margra renna út. „Þegar þúsundir eða jafnvel tugþúsundir verða atvinnulaus tapar fólk rútínu sinni og missir virkni sína. Það getur skapað álag á heilbrigðiskerfið. Spurningin er alltaf þessi: Hversu mikið geturðu hjálpað þér sjálfur? Það gefur fólki mikið að geta séð um sig sjálfur, rútínerað líf sitt og ekki gert of miklar kröfur, bæði á sjálfa okkur og annað.“

Allt eins og það á að vera?

Undir lokin fer samtalið yfir á heimspekilegri nótur. Naumhyggja ber á góma í tenglsum við loftlagsmál sem hefur beina skírskotun í peningaöflin sem að miklu leiti stjórna geðlyfjaiðnaðnum sem dæmi. Þar vilji menn að neytt sé meira. En kannski er svarið að neyta minna.

Héðinn veltir því upp að Alda Karen Hjaltalín hafi líklega haft rétt fyrir sér þegar hún stóð fyrir fullum sal og sagði: „Þú ert nóg.“ Heimurinn er svo fullur af upplýsingum og stöðusamanburði að kannski er bara best að kúpla sig út, eins og sífellt fleiri reyna að gera í dag.

Íslendingar eru gjarnir á samanburð, segir Héðinn. Við erum upptekin af því að vinna. Okkur vantar ytri viðurkenningu. Kannski hefðum við öll gott af svolítilli ofurnæmni; sjá heiminn í öðru ljósi.

„Ég hef brunnið fyrir það lengi að hafa áhrif á heiminn. Farið út um allt til þess. Á endanum snýst þetta ekki um þig. Kannski hafði Voltaire rétt fyrir sér í lok Birtings, er ekki allt eins og það á að vera.“

Geðhjálp eru samtök um 3000 félaga og styrktarfélaga sem „vinna að því að bæta þjónustu, verja réttindi og vinna gegn fordómum með hagsmunagæslu, ráðgjöf, upplýsinga og þekkingarmiðlun,“ að því er segir á heimasíðu samtakanna. Samtökin aðstoða fólk við að leita réttar síns í kerfinu og taka þátt í umræðu um geðheilbrigði, til dæmis með umsögnum um lagafrumvörp og þátttöku í stefnumótun hins opinbera. Héðinn Unnsteinsson var kjörinn formaður samtakanna á aðalfundi í vor en hann hefur komið að samtökunum um tíma, síðast sem varaformaður.

Á næstu árum vilja samtökin auka sýnileika sinn og ná til fleiri aðila, sérstaklega ungs fólks og nýta til þess tækni og samfélagsmiðla. Þá er áætlað að stofna Styrktarsjóð Geðhjálpar og að fyrsta úthlutun fari fram haustið 2021.

„Hugmyndin er að safna allt að 300 milljónum,“ segir Héðinn. 70 milljóna framlag kemur frá samtökunum sem ætla að „gera tilraun til að sækja svipaða upphæð frá hinu opinbera, á einhverjum tíma frá einkaaðilum og svo almenningi og völdum stofnaðilum.“

Sjóðnum er ætlað að styrkja verkefni í geðheilbrigðismálum á Íslandi, meðal annars rækta geðheilsu íbúa landsins með því að stuðla að framþróun nýrra lausna í þágu geðheilbrigðismála.



Hátíðarræða flutt á Umdæmisþingi Rótary á Íslandi í Borgarnesi þann 9. október 2015. Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn er í dag – yfirskrift dagsins er „virðing í geðheilsu“

10. október 2014
Ó - geð
Í dag er alþjóðageðheilbrigðisdagurinn. 10. október sem varð að hátíðardegi geðheilbrigðis árið 1992 og því er þetta í 23. skiptið sem alþjóðasamfélagið fagnar geðheilbrigði. Við Íslendingar höfum fagnað þessum degi nær öll árin.

10. október 2013
Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn - Hrós
"Þessir þrír hópar eiga hrós skilið fyrir þær framfarir sem hafa orðið í geðheilbrigðismálum á Íslandi undanfarin ár."
Í gær var alþjóða geðheilbrigðisdagurinn haldinn hátíðlegur í 23. skiptið. Það voru Alþjóða geðheilbrigðissamtökin (World Federation for Mental Health) sem áttu frumkvæði að deginum árið 1992. Tilgangurinn var að vekja vitund almennings um mikilvægi geðheilsu, fræða fólk um eðli og afleiðingar geðraskana og sporna gegn fordómum og mismunun.

17. maí 2011
Staða geðheilbrigðismála á Íslandi - grein eftir Héðin Unnsteinsson og Jónu Rut Guðmundsdóttur
Það er okkar skoðun að málaflokkurinn þurfi núna sem aldrei fyrr á skýru utanumhaldi, samvinnu og forystu að halda."
Í upphafi árs 2005 sátu heilbrigðisráðherrar 52 Evrópulanda á fundi í Helsinki og ræddu breyttar áherslur í geðheilbrigðismálum á ráðherrafundi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Meðal þeirra var heilbrigðisráðherra Íslands. WHO hafði undirbúið fundinn í nærri eitt ár og mótað stefnu fyrir Evrópu í málaflokknum í miklu samráði við alla hagsmunaaðila.

10. október 2010
Geðheilsa okkar – þörf á samþættu átaki - grein eftir Héðinn Unnsteinsson og Pál Matthíasson
"Það búa allir við mismikla geðheilsu og það ætti að vera markmið stjórnvalda að efla hana og bæta m.a. í gegnum stefnur í efnahags- og félagsmálum."
Hvað felst í orðinu geðheilsa á sér enga eina algilda skýringu. Geðheilsa felst í hugsunum okkar, tilfinningum, líðan og gerðum er við tökumst á við lífið.

5. janúar 2010
Fordómar í garð fólks með geðheilbrigðisvandamál
 "Fordómar eru sérstakt fyrirbrigði, afar huglægir og erfitt ef ekki ómögulegt að mæla. Upplifaðir fordómar eru eitt en skilgreindir fordómar annað."
„Ef þú ferð að skipta þér af eða vinna í geðheilbrigðiskerfinu eftir að hafa þurft á því að halda sem sjúklingur áttu það á hættu að verða ævilangt smækkaður niður í þá geðgreiningu sem þú fékkst þar.“

10. október 2009
Breyttar áherslur í geðheilbrigðisþjónustu - grein eftir Héðin Unnsteinsson og Pál Matthíasson
 "Við þurfum geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaáætlun sem tekur á geðrækt og vellíðan allra borgara, vinnur gegn fordómum, mismunun og félagslegri einangrun."
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) áætlar að á einhverjum tíma æviskeiðs síns muni einn af hverjum fjórum landsmönnum upplifa röskun á geði. Á tímum sem þeim er við lifum nú mætti ætla að sú tala væri hærri, en enn sem komið er hefur geðheilbrigðistengt álag á geðsvið LSH og heilsugæslustöðvar ekki aukist nema lítillega (komum á bráðamóttöku geðdeildar LSH hefur fjölgað um 7,4% það sem af er árinu, samanborið við sama tíma í fyrra). Hins vegar má búast við að ásókn vaxi til lengri tíma.

18.mars 2007
Geð-ráð til heilla og eftirbreytni - Þriðja grein - Í þjónustu geðheilbrigðis í Evrópu
Langt í land Rúm með búri á geðdeild í ónefndu landi í Evrópusambandinu árið 2005. Mannréttindi geðsjúkra eru víða ekki lengra komin.
Á Nýja-Sjálandi starfar geðráð og slíkt ráð er í undirbúningi í Kanada. Íslensk stjórnvöld gætu riðið á vaðið hér á landi og hafið undirbúning að geðráði, sem yrði víðtækur samstarfsgrundvöllur.

11. mars 2007
Umbreytingar í Albaníu - önnur grein - Í þjónustu geðheilbrigðis í Evrópu
Ástand geðheilbrigðismála í Albaníu er bágborið. Fólk dúsir inni á stofnunum áratugum saman við slæman aðbúnað og lítill sem enginn gaumur er gefinn að því að efla einstaklinginn og finna honum hlutverk og tilgang.
Ég sat í flugvélinni og horfði yfir fjöllum skorna sléttuna þar sem Tirana sat í kjöltu hárra fjalla. Þetta var þriðja heimsókn mín til Albaníu. Nú ætlaði ég að stoppa í viku , heimsækja þrjú geðsjúkrahús og funda með notendum og fyrrum notendum geðheilbrigðisþjónustunnar. Ferðin var líkt og hinar fyrri skipulögð í samvinnu við skrifstofu Alþjóðaheilbrigðismálaskrifstofunnar (WHO) í Albaníu og hluti af ICS verkefninu.

4. mars 2007
Í þjónustu geðheilbrigðis í Evrópu - Fyrsta grein af þremur
Það var í marsmánuði árið 2004 sem ég hóf störf fyrir geðheilbrigðissvið Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðis-málastofnunarinnar (WHO-EURO) í Kaupmannahöfn – þá nýkominn úr meistaranámi í Alþjóðlegri stefnumótun við Háskólann í Bath á Englandi, sem beindist að stefnumótun í heilbrigðis- og félagsmálum, með geðheilbrigðismál sem sérstakan áhugaflokk, þrátt fyrir að námið miðaðist að stefnumótun fyrirtækja jafnt og ríkis í hnattvæddum heimi.

26. september 2006
Raunveruleg geðheilbrigðismál
"Ég tel það afar mikilvægt að félagsleg nálgun, mannúð og áhersla á styrk einstaklinga og þarfir sé höfð í hávegum þegar kemur að þróun stoðþjónustunnar og umhverfis hennar."
EFTIR að hafa lesið grein Eydísar Sveinbjarnardóttur, geðhjúkrunarfræðings og sviðsstjóra á geðsviði Landspítala - háskólasjúkrahúss (LSH), hér í Morgunblaðinu 1. september síðastliðinn gladdist ég. Loks steig fram á "geðsviðið" fagaðili sem var tilbúinn að taka þátt í þeirri umræðu sem notendur þjónustunnar ásamt fleirum úr borgaralegu samfélagi hafa svo sárt kallað eftir nú um nokkurt skeið.

4 júlí 2006
Ný landsýn
Samfélag manna er í stöðugri þróun. Þróun sem tekur mismikinn tíma eftir því í hvaða málaflokki er borið niður. Það hefur verið einkennandi fyrir lifandi verur frá upphafi að sækja í viðurkennt ástand sér til framfærslu og aukinna líkna á fjölgun og velsæld. Þarna er mannskepnan engin undantekning. Við leitumst við að falla í félagslega normið og uppfylla þau skilyrði tilvistar sem samfélagið, lögin og hégóminn m.a. setja okkur. Fáir synda gegn straumnum, þó það sé nú í æ ríkara mæli að færast í tísku. Í ljósi þessa og þeirrar staðreyndar að ramminn utan um þessa "norm-hyggju" er samansettur úr hlutlægum mælikvörðum vísinda og "grunn-staðreynda" sem fáir leyfa sér að efast um skulum við um stund gleyma öllu sem okkur hefur verið sagt og kennt.

10. október 2005
Geðland
 MÉR hefur, í gegnum þau ár sem ég hef haft ástæðu til að fagna geðheilbrigði mínu, þótt 10. október vera góður dagur til þess. Haustið er góður árstími til að minna sig á geðheilbrigði. Minna sig á hvaða þættir hafa áhrif á lundina og hverja þeirra við getum haft áhrif á. 10. október er Alþjóðageðheilbrigðisdagurinn.

1. október 2005
Hlúðu að því sem þér þykir vænt um
Héðinn Unnsteinsson skrifar Geðorð nr. 2: "Það sem við öll þurfum og þráum: athygli er æ erfiðara að upplifa í heimi sem nærist á sjálfhyggju."
Í DAG er ég ástfanginn. Mér líður vel. Ég finn hvernig hormónaflæði líkamans hefur breyst og lyftir lund minni og líkama á hærra plan. Gerir mig á einhvern hátt ósnertanlegan. Ég er ástfanginn af annarri manneskju. Það er eins og það renni upp fyrir mér þessa dagana að e.t.v. sé það besta sem ég get gert fyrir sjálfan mig það að gera eitthvað fyrir aðra. Að þversögn lífsins og lífshamingjunnar sé að gefa það sem manni langar mest í sjálfum. Það hljómar hálf öfugsnúið á tímum sem einkennast af andhverfu þess fyrrnefnda.

3. apríl 2005
Vald - val - vísindi - von
Yfirlýsing og aðgerðaáætlun 52 Evrópulanda í geðheilbrigðismálum fela í sér framtíðarsýn um aukna samvinnu milli stjórnmálamanna, notenda þjónustunnar og fagfólks að bættu geðheilbrigði.
Það var vorið 1938 að Ugo Cerletti fékk hugmyndina að því að prófa raflost við geðsjúkdómum. Hann hafði þann vordag farið snemma út og heimsótt slátrarann og veitt því athygli að slátrarinn deyfði svínin með raflosti áður enn hann tók líf þeirra með eggvopni. Cerletti sá einnig að svínin fengu flog áður en þau róuðust svo auðveldara væri að aflífa þau.

10. október 2004
Efnið og andinn
 "Ég bið fyrir samvinnu notenda, stjórnenda, stjórnmálamanna og alls almennings um geðheilbrigði á Íslandi sem annars staðar."
Í efninu býr andinn og andinn gefur efninu tilgang og gildi. Hvorugt getur án annars verið. Eins er það með heilsuna. Líkamleg heilsa og geðheilsa eru ofnar órjúfanlegum böndum og eru í eðli sínu eitt og hið sama, sprottnar af sama meiði, geta hvorug án annarrar verið er þær marka og móta hvor aðra eins og tómið mótar það sem það umlykur. Birtingarform þessarar tvíhyggju er mannveran, heil og fullkomin í sínum ófullkomleika.

15. júní 2004
G-evrópa
 Í HELSINKI um miðjan janúar á næsta ári halda Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og Evrópusambandið ráðherraráðstefnu allra 52 Evrópulanda. Þar hittast heilbrigðisráðherrar, embættismenn, fræðimenn og fulltrúar frjálsra félagasamtaka og ræða þann víðfeðma málaflokk: geðheilbrigðismál í Evrópu á fjögurra daga lokuðum fundi. Áhersla fundarins er m.a. á geðheilbrigði barna og unglinga, geðheilbrigði og vinnu og geðheilsu eldri borgara, ásamt því að ræða fordóma og þjónustu við geðsjúka. Ætlunin er að heilbrigðisráðherrarnir skrifi undir yfirlýsingu og framkvæmdaáætlun sem hrinda á í framkvæmd til að auka geðheilbrigði Evrópubúa á tímum örra breytinga; og næg ástæða er til.

8. febrúar 2004

Af heilu brigði og hálfu

Sveiflur milli tveggja andstæðra póla eru hluti af tvískautóttu eðli tilverunnar. Pólarnir tveir eru hvor fyrir sig undirstaða hvor annars. Það væri enginn dagur án nætur, ekkert hvítt án svarts osfrv. Samfélag manna er í okkar landi samansett af þremur grunneiningum: Ríkisvaldi (öll þrjú sviðin), Frjálsum markaði og Borgaralegu samfélagi. Í þessu samfélagi manna eru svo iðulega dregnar línur. Hversu langt við sem samfélag getum samþykkt nálgun að pólunum án þess að sú nálgun falli utan þess sem er sam-félagslega samþykkt og viðurkennt sem "norm" sem endurspeglast í lögum, reglum, og viðteknum gildum og viðmiðum samfélagsins. Hvar og hvernig liggur þá hinn félags-hagfræðilegi (socio-economic) rammi, á hverju er hann byggður og hver ber ábyrgð á smíði hans? Er hann byggður á kantískri vísindahyggju, afsprengi kristinnar trúar, krógi öflugra markaðs "hagvaxtar- og gróða-þarfa", eða dyggða húmanisma og getur verið að undirstaða hans og allra meðvitaðra afla sem móta hann sé ómeðvitað, breyskt eðli mannanna? Hvaða eining af fyrrgreindum þremur einingum samfélagsins hefur mest mótunaráhrif á rammann og þá væntanlega breytni manna innan hans?

10. október 2002
Geðsaga
"Getur verið að geðveikin færist í aukana eftir því sem mannkyn færist fjær uppruna sínum, fjær náttúrunni?"
Í DAG er 10. október, hinn alþjóðlegi geðheilbrigðisdagur. Í heimi sem elur af sér svo margt af því illa sem við sem manneskjur glímum við alla daga er mikilvægi heils geðs og heillar ásjónu nú meira en nokkru sinni. Þema dagsins er í anda atburða 11. september árið 2001, eða: Áhrif áfalla og ofbeldis á börn og unglinga. Ég ætla mér að ræða aðra hlið geðheilbrigðis í dag.

19. febrúar 2002
Tilbrigði við heilbrigði
ÉG er með hausverk. Ég er með hausverk af þeim flaumi af áreitum sem fylgja nútímamarkaðssamfélagi. Samfélagi þar sem tilveran er uppfull af skilaboðum frá fyrirtækjum og aðilum sem vilja þjónusta okkur og hagnast á þörfum okkar og löngunum. Skyndilega eru grunnþarfir mannsins orðnar fjölmargar. Okkur eru á borð bornar grímuklæddar langanir sem orðnar eru að þörfum. Við "þurfum" urmul af alls kyns dauðum hlutum til þess að koma okkur í gegnum daginn. Markaðurinn telur okkur trú um að við komumst ekki af án allskyns "óþarfa". En hverjar eru grunnþarfirnar?

2. janúar 2002
Jafnvægi Asklepíosar
JAFNVÆGIÐ er lykilorð í tilverunni. Lífið er í eðli sínu röð kvarða á jafnvægisstiku. Á öðrum endanum er jafnvægi og hinum ójafnvægi. Hámarks vellíðan öðrum megin og dauði hinum megin (mynd 1). Náttúran leitast við að halda jafnvægi og það er einmitt í jafnvægi sem okkur mönnunum líður best. Við upplifum öryggi og vellíðan í jafnvægi. Í raun eru tveir meginþættir sem segja til um jafnvægi okkar í lífinu, annars vegar erfðaefni okkar og hins vegar allar umhverfisaðstæður og atburðir sem fylgja okkur frá vöggu til grafar.

6. september 2001
Íslenska veikindakerfið
Þeir aðilar sem ég ræddi við þar furðuðu sig á þeirri staðreynd, segir Héðinn Unnsteinsson, að forvarnir á Íslandi væru svo ósamhæfðar og margar sem raun ber vitni í svo fámennu landi.

UM ALLNOKKURT skeið nú hefur borið á þeirri skoðun í Evrópu og Bandaríkjunum að "heilbrigðiskerfi" þau sem þjóðir hins vestræna heims búa við séu í raun veikindakerfi. Kerfin séu of miðuð að því að taka á heilsufarsvanda eftir að hann er kominn upp. Ef þetta er rétt ætti íslenska kerfið að taka upp veikindaforskeytið í stað heilbrigðisforskeytisins. Þá yrði heilbrigðisráðherra að veikindaráðherra, heilbrigðisþjónustan að veikindaþjónustunni o.s.frv.

26. maí 2001
Vill öfluga forvarnamiðstöð fyrir alla málaflokka
Í heilbrigðisstefnu stjórnvalda í Bretlandi er nú aukin áhersla lögð á eflingu geðræktar og forvarnir gegn sjálfsvígum. Héðinn Unnsteinsson, verkefnisstjóri hjá Geðrækt, er nýkominn frá Bretlandi þar sem hann kynnti sér stefnuna og framkvæmd hennar.
"Síðasta öld var öld meðferða, að taka á vandanum eftir að hann kemur upp. Nýja hugsunin er að leggja aukna áherslu á að fyrirbyggja vandann svo hann komi ekki upp," segir Héðinn Unnsteinsson, verkefnisstjóri hjá Geðrækt, en í ferð sem hann fór nýverið á vegum landlæknis heimsótti hann Bretland, skoðaði geðsjúkrahús í Sviss og sótti ráðstefnu Evrópusambandsins um geðheilbrigðismál í Brussel.

7. apríl 2001
Geðheilbrigði - Fordómar - Til íslensku þjóðarinnar
Fordómar tengdir geðsjúkdómum, segir Héðinn Unnsteinsson, eru aukaálag á þá sem veikjast og aðstandendur þeirra
ÁGÆTU landsmenn. Í dag, 7. apríl, er alþjóðaheilbrigðisdagur WHO, þetta árið helgaður geðheilbrigði. Í dag taka þjóðir heims sig saman og fagna geðheilbrigði en minnast þess í leiðinni hversu mikið er óunnið svo að flestir megi búa við þá vellíðan sem góð geðheilsa er. Það er því miður mikið óunnið.

6. janúar 2001
Fyrirkomulag forvarna á Íslandi
Auður okkar liggur í heilbrigðu, hraustu mannfólki, segir Héðinn Unnsteinsson.
NAUÐSYNLEGT er að endurskipuleggja fyrirkomulag forvarna á Íslandi. Aukin samvinna og sameining karfta allra þeirra aðila sem starfa að forvörnum mun leiða til stóraukins árangurs á því sviði, auk betri nýtingar fjármagns.

10. október 2000
10.10.2000 ad
Geðrækt er sú rækt, segir Héðinn Unnsteinsson, sem við viljum markaðssetja meðal landsmanna.
Í DAG er hinn alþjóðlegi geðheilbrigðisdagur. Þessi dagur hefur öðlast þann sess að vera baráttudagur geðfatlaðra og aðstandenda þeirra. En öll búum við við geð og geðheilsu, mismunandi góða og öll eigum við það sameiginlegt að vilja gera allt til þess að hlúa að geðheilsunni. Skiptir þá engu máli hvort við höfum upplifað geðsjúkdóm eður ei. Samkvæmt tölum alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar eiga allt að 22% landsmanna við geðraskanir að stríða á hverjum tíma. Það skilur 78% eftir sem eru heil á geði.

10. október 1999
10. október 1999
Sinna verður geðheilsunni jafnvel og líkamlegri heilsu, segir Héðinn Unnsteinsson. Hætta að grafa holur og fela viðkvæm málefni geðsins. ÞAÐ er engin heilsa án geðheilsu. Þetta eru slagorð alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) í geðheilsuátaki stofnunarinnar. Í dag er alþjóðlegur geðheilbrigðisdagur og því rétt að undirstrika merkingu og sannleiksgildi þessara orða. Sýna fram á hve vel þau eiga við, í dag sem alla daga. Geðheilbrigðisdagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur á Íslandi árið 1996. Uppákomur dagsins hafa á þessum þremur árum að mestu leyti verið skipulagðar af Geðhjálp og aðalinntak þeirra verið hagsmunabarátta geðsjúkra. En geðheilbrigði er ekkert einkamál þeirra er glíma við geðsjúkdóma. Geðheilsa snertir alla.

10. október 1998
Framtíð geðsjúkra - Ég á mér sýn
Á morgun er hinn alþjóðlegi geðheilbrigðisdagur, 10. október. Á þessum degi gera geðsjúkir, víðs vegar um heiminn, sig sýnilega og vekja máls á slnum baráttumálum. Ísland er þar engin undantekning. Í tengslum við þennan dag hafa Geðhjálp, líknarfélag geðsjúkra, og Kiwanishreyfingin á íslandi hrundið af stað söfnun til styrktar geðsjúkum. Söfnunin stendur yfir dagana 8.-10. október, en þá munu félagar úr Kiwanis selja K-lykilinn undir yfirskriftinni, „Lykill að framtíð Geðhjálpar". Ég á mér sýn. Ég á mér sýn, sýn um kröftugt starf í þágu geðsjúkra utan geðdeilda, sýn um þroskað og upplýst viðhorf almennings í garð geðsjúkra og sýn um brotthvarf skammarinnar úr lífi geðsjúkra. Ég trúi því að þessar sýn geti ræst. En til þess að svo verði þurfa samtök eins og Geðhjálp að dafna. Þjóðin hefur nú færi á að styrkja Geðhjálp og fá til baka aukna fræðslu og umfjöllun um geðsjúkdóma sem allt of margir bera kvíðboga fyrir. Kannski er sá ótti skiljanlegur þar sem við erum oft hrædd við það sem við skiljum ekki. En með sterkum samtökum, eins og Geðhjálp vonandi verður, ætti að verða auðveldara að vinna bug á skilningsleysi fjöldans og þeim fordómum sem þrífast í skugga þess.

 

Umfjöllun

Nærvera - Leiðari í blað Geðhjálpar okt 2022

Er heimurinn afstaða okkar til hans? - Leiðari í blað Geðhjálpar okt 2021

Góð vitleitni - Leiðari í blað Geðhjálpar okt 2020

Eðlilegt fólk - Umfjöllun í Fréttablaðinu 21. mars 2019

Skoðanir Héðins höfðu áhrif - Frétt í Morgunblaðinu 24. Apríl 2015

Gagnrýnin reyndist dýrkeypt. Frétt í Morgunblaðinu 25. mars.

 

Kastljós

Rætt við Héðinn Unnsteinsson, sem um árabil starfaði að geðheilbrigðismálum hjá Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni og hefur sjálfur glímt við geðraskanir, um reynslu hans af íslenska geðheilbrigðiskerfinu.
Birt þann 25. mars 2015

 

Fyrirlestrar

Héðinn Unnsteinsson ráðgjafi í geðheilbrigðismálum og fyrrum sérfræðingur hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) Hér má finna glærur Héðins: http://prezi.com/thiohnllopjv/i-viu-samhengi-erindi-a-malingi-gehjalpar-hvers-viri-er-frelsi-23012014/