Kvæði og laust mál

 
 

2023

5-0  Afmælisóður til Sigurbjargar Þrastardóttur

Sigurbjörg Þrastardóttir skáld átti 50 ára afmæli 27. ágúst 2023. Í tilefni dagsins og henni til heiðurs var gerð tilraun til þess að umfanga titla allra 17 ljóðabóka hennar í fimm ferskeytt kvæði.

Titlar ljóðabóka Sigurbjargar og útgáfurár eru eftirfarandi:

• 2022 Krossljóð: þýdd og frumort
• 2020  Mæður geimfara
• 2018  Hryggdýr
• 2016  Óttaslegni trompetleikarinn
• 2014  Kátt skinn (og Gloría)
• 2014  Hestaferð í hundrað og einn
• 2013  Bréf frá borg dulbúinna storma
• 2012  Stekk
• 2010  Brúður
• 2010  Húfulaus her: jólasveinasögur
• 2007  Blysfarir
• 2005  Hreindýr og ísbjörn óskast
• 2004  Þrjár Maríur
• 2003  Túlípanafallhlífar
• 2002  Sólarsögu
• 2000  Hnattflug
• 1999  Blálogaland

5-0  Afmælisóður til Sigurbjargar Þrastardóttur

Hún bláa loga batt við land,
er blint hófst hnattflug vífar.
Sólar unni sögu grand,
segja túlipana-fallhlífar.

Megi lengi sögur af Maríum vara,
og menn áfram tendra blys - til fara.
Óska eftir dýri hreinu og hvítum birni,
húfulausum her af sveinafirni.

Þá leið frá henni brothætt brúður,
brátt fylgdi hátt eitt stökk.
Borgar stormur, bréfaslúður
og Bankastrætis hrossin dökk.

Af kátu skinni klárar vakrir spruttu,
og karl með lúður nærði beyg í brjósti.
Af himni ofan hryggdýr óvænt duttu,
en húsmæður geimfara bárust með pósti.

Frumort fann hún mál í tengslum,
við fóstruð orð, í krosssaum mörg.
Þar tungur heims úr greppa geymslum,
fram galdraði skáldið Sigurbjörg.


2022

Við-bragð

Við bregðumst, við bregðumst við af nýjum sið.

Við vörum, við vörum við sem aldrei fyrr.

Veðri vörum við við, við og við,

þó verður sem verður í stríði og frið.


2020

Á Vikrafelli

Á tindinum ná jafnvel tvílyndir sátt,

er tært andrúmsloftið fyllir hvern drátt.

Þar hógværð og mildi hemja þann mátt,

sem hverfist um sjálfið og vill fara hátt.


2019

Hesteyri

Spor á ströndu, spor á jörð,

spor á slóðum fornum.

Eyri Hests við hljóðan fjörð,

helguð stundum horfnum.


2018

Í landi Svartra fjalla

Hér skera fjöllin sléttur knappar

skrúðug tré á velli standa.

Streymi ljóss um æðar renna

fossar niður hlíðar brattar.


Hér bera prestar eldsins orðið,

Orþadox er þeirra Kristur.

Látlaus augun ljósið spegla

litur hjartans purpura rauður.

 

Hér millum svartra fjallatinda

finnast sálir göfgar kærleiks.

Bera í greipum, huga, hjarta

hlýju guðdóms sálna jarðar.



Maí 2017

Skipti

Var það á þeim tímum þegar fáskipti urðu að auknum samskiptum í gegnum rafmögnuð fjarskipti að við misstum tökin?

Í kjölfarið jukust skiptin og samhliða jókst áreitið. Samskiptaboðin koma nú úr öllum áttum.

Flestumokkar reynist erfitt að finna öllum þessum reitum og skiptum rúm inn í hinu afmarkaða og blekkta glasi tímans.

Glasið getur ei lengur umlukið allt.              Höfuðið er fullt af kornum sem finna sér ekki farveg í tímanum.

Við höfum reynt að hægja:  jóga, hugleiðsla, núvitund. 

Nú er ekkert eftir nema afturhvarf til fáskipta í nánd.

Hver ætlar að slá út?

 

Fortíðin

Það  er með nefinu sem fortíðin er best skynjuð og skilin.

Angan hennar læðir sér inn fyrir nasavængina.

Það er í raun ilmur nútíðar sem endurlífgar fortíðina. Fullmótar gamla mynd.

Áður en þú veist af stendurðu albúin í fortíðinni með nútímann á herðunum. 

 

Desember 2016

Þögn

Þögn er eina orðið sem gefur frá sér hljóð. Öll hin orðin í málinu eru hljóðlaus.
Ef ekki væri fyrir þögn væri alger þögn.

 

Desember 2016

Orð um ljósið á jólum

Ljósið er átta mínútur frá sólu til jarðar.

Ljósið ferðast þó hratt.

Það er bara svo langt frá sólu til jarðar.

Ljós mannanna er örskotsstund að fara millum þeirra við snertingu og augnaráð.

Samt getur verið svo langt á milli þeirra í nærveru.

Milli mannanna.

Nú er tími nándar í samveru þrátt fyrir millibilið.

 

 

Desember ´93

   Það  eilífðin ein kann að  afhjúpa
   sem augu þín hafa að  fela.
   Fljótandi steinar fegurðar liggja á hafinu djúpa.


Janúar ´94

   Veturinn er líkur vefara sem landið klæðir.
   Voðir sínar hann breiðir yfir stræti og torg.
   Tréin þekur fínlegum kristalflögum,
   Fagurskapaðar minna á útskorið laufabrauð
   Þar sem þær glitra í dögun.
   Vorið kemur í áföngum og leysir vetur af hólmi.
   Vorið ómar af glaðværð og bjartsýni sem engan lætur        ósnortinn.


Febrúar ´95.

   Þrekaður af döprum þönkum
   Þvælist ég í kennslustund.
   Sá svarti hundur beit mig aftur,
   Sterkur ræður minni lund.

Mars ´95

   Ævin líkt og óskastund
   með örskotshraða líður.
   Hamingunnar fagra hrund
   hvítum fáki ríður.

Mars ´95

   Ég bundinn er í báða skó,
   brotinn vilji og sálarró.
   Skips míns anda strandað er,
   seglin vindlaus og kafteinninn þver.

Apríl ´95

   Regnið nú af rúðum drýpur
   rætist vorsins innsta þrá.
   Jörðin vatnsins svala sýpur
   af svefni foldar vakna strá.

Páskadagur ´95

   Líkt og nafar efinn mig nagar
   og nálgast mig innanfrá.
   Guðlegasprota niður hann sagar
   en eftir skilur visin strá.

Ágúst ´95

   Yfir grasið ljúft er að ganga
   er golan leikur um vanga.
   Þá hugurinn hvarlar að æskuárum,
   horfinni ást og tregatárum.

Ágúst ´95

   Ættmæður mínar í ellinni húka.
   Ævinni fara senn báðar að ljúka.
   Ferð þeirra hófst við Breiðafjörðinn,
   en fjarar svo út við kirkjugarðssvörðinn.

Ónefnd

   Þó lífið mér úr lúkum renni
   líkt og laxinn kölska forðum.
   Þó andinn engist, brotni og brenni
   birtist von í þínum orðum.

Október ´95

   Sæmundur á selnum fór
   sveittur yfir hafið.
   Himinn líkt og opinn ljór
   með norðurljósatrafið.

   Er loks að ströndu selinn bar
   þá Sæmi hló og gleði fann.
   Hans klerkssál fylltist kæti þar,
   hann kleif úr fjöru í næsta rann.

   Á Háskólanslóð á heiðskýrum degi
   hetju má líta stalli á þar.
   Þar er hann kominn Sæmundur seigi,
   hann selnum kom yfir úfið mar.

Desember ´95 - Pourquai Pas

   Er brimið klettana barði svörtu
   á bænum ljósið veika skein.
   Á skipinu börðust sjóveik hjörtu
   við sterka ægis boðahlein.

Desember ´95

   Harmur minn fyllir heimsins eymd
   hringsnýst í brjósti mér tregi.
   Boðorðin tíu eru grafin og gleymd,
   glundroði ríkir á lífs míns vegi.

Desember´95

   Ef saman við leggðum í erfðasjóð
   léti útkoman vart láta á sér standa.
   Ættarstofnsins besta blóð
   barninu leggðum til handa.

Janúar ´96

   Eitt glas úr tímans tæra fljóti
   teygum, fögnum æsku vorri.
   Ómælt þinnar nærveru njóti
   nú er líður dimmur þorri.

   Einfalt lífið á að vera,
   einu viltu mér þó lofa.
   Ávallt skaltu gott eitt gera
   gleðjast og fara snemma að sofa.

Febrúar ´96

   Gagnvart ásjónu þinni ég agndofa verð,
   áhrifin einstök, mín sál er í háska.
   Þinn karakter virðist af vandaðri gerð
   og vísast er andinn fullur af gáska.


Október ´96

   Yfirsetan – Brunarústir Bakkusar

   Undir loftborsins háværu höggum
   heldur þú til hér um stund.
   Sviptur frelsi og lífsins föggum,
   frosin þú starir, brostin er lund.

   Þér áður allt lífið gekk í haginn,
   ungur gekkstu auðnubraut.
   Bakkus þér breytti einn vetrardaginn
   er beiskur dómur þér féll í skaut.

   Í þínu lífi ríkja djöfull og dauði,
   daðrað hefurðu báða við.
   Um sjötugt líf þitt koðnar kauði
   er krossfestur ertu á vínsinsvið.

   Sálin loks mun sigra vítið
   og stika upp löng himnaþrep.
   Hreinsun sú mun hvítþvo lýtið
   hvað slæmt þér veitti lifrardrep.

 
Desember ´96

   Tóm þinnar tilveru veitir þér glóð
   töfrandi neista sem áfram þig rekur.
   Leiftrandi hann leiðir þig ótroðna slóð
   uns lífs þíns keyrir í hendur tekur.

Júní ´97

   Minning

   Þitt gestrisna eðli, þín gefandi hönd
   gladdi mörg hjörtun, skóp vináttubönd.
   Nú böndin ei bresta þó upp fari önd
   og berist svo tær yfir frelsarans lönd.

   Ég kveð þig í sátt en minningin skýr
   skín ljóst sem viti er leið minni stýr.
   Þinn einlægi hugur svo gefandi og hlýr
   í hjarta mér lifir og að eilífu býr.

September ´97

Kvæði til ókunnar stúlku

   Leið inní stofuna ljóshærð hrund
   lítið eitt sein var í kennslustund.
   Blautur haddur sem kóróna á kolli,
   kunnuglegt andlit mér pælingum olli.

   Líkt og öldur beri bát að landi
   birtist mynd þín æ í höfði mér.
   Að skonnortu hafsins snýr þó sá vandi
   að snoppa hennar ei kunnug er þér.

   Hér að ending frá mér limru þú færð.
   Því færist nú ró yfir hugann og værð.
   Ég vona að ei þú mig vítir
   eða illum glósum að mér hnýtir,
   því markmiðið var aðeins að yrðir þú hrærð.

   En inntak kvæðanna átti ei stoð,
   erindi þeirra vísast aftur ég taki.
   nær innantómt blaður og torskilið moð,
   í ergelsi skáldskaparmerin mér hendir af baki.

Október ´97

   Forvarnir

   Í upphafi vetrar hann villtist af leið
   og vínið skyggði á hans farsælu braut.
   Hann steig Bakkusi á bak og lagði á skeið
   í blóðugri gandreið áfram nú þaut.

   Hann á leiðinn áði á mörgum misjöfnum stað,
   meyjarnar tældi í rætnum fýsnablossa.
   Á Vegas hann tefldi oft á tæpasta vað,
   fyrir tuttuguþúsund fékk ´ann rennblauta kossa.

   Á bykkjunnar baki sat hann dag eftir dag
   og blíndi í óminni á tælenskar kuntur.
   Loks er andi og líkami urðu innantómt skar
   ískraði í klárunum: við erum Andskotans-truntur.

   Nú trunturnar stefndu fram af hamrinum háa,
   í hrossins makka gróf fingur, hélt taki.
   Hann til baka hugsaði um reiðdaga ei fáa,
   í hryllingi þess óskaði að ´ann dytti af baki.

Apríl ´98

   Nútíma höfuðlausn

   Vaknar seppi af værum dvala
   virðist engu hafa gleymt.
   Leggur þunga loppu þvala,
   ljósið dofnar, aftur reimt.

   Svartur rakkinn froðu fellir
   fránum augum lamar mig.
   Huldir þoku vits míns vellir
   vitund nálgast óráðsstig.

   Farðu aftur Fjandans til
   og fuðraðu upp í vítisfuna.
   Sökktu djúpt í heljarhyl,
   hunskast burt úr mínum muna.


Nóvember ´98

Ákvæði

   Af elli hvítt var Stefáns strý
   er steig hann dómsinspontu í.
   Andlit rautt, á augum ský,
   af lagatorfi lútinn.
   Málið sótti af hörku og heift
   hafði af vítiskaleik dreypt.
   Einum virtist Kölska kleift
   að kveða hann í kútinn.


   Dreyrinn ei til drosins fann
   er drembildrútur skeiðið rann.
   Hold mitt jafnt og höfuð brann,
   hann kvað svo háttað lögum.
   Kærleiksþel hans kulnað var
   kauði var á samúð spar.
   Í honum árar finni far
   og fækki hjartaslögum

Nóvember ‘99

    Á  Hlemmi

   Það er kyrrt og hlýtt á Hlemmi
   og hluti af staðnum ert þú.
   Blóð mitt seytlar uns strætóinn stemmir
   strengi huga sem nærist á trú.


    Trú á hið taktfasta,
    trú á hið góða.
   Trú á hið örugga án allra hljóða,
   trú á hið máttuga, mikla og stóra.
   Trú á manninn, nú setur mig hljóða. 

Júlí 2000

Til hjóna

   Í  dag þau lögðu mund í mund
   mættust hljóð við kyrrðarstund.
   Heitin unnu, halur, sprund
   í  heilagleik á  vígðri grund.
    
   Megi Íslandsvættir vanda
   viðmót sitt til hjóna handa.
   Guð  ég bið að geym, ei granda
   gæfuinntak hjónabanda.


Febrúar 2000

   Í  brjósti nú  er brostinn strengur
   breytni mín var hörmung ein.
   Ég særði þig og sé ei lengur
   sólkinsbrosin björt og hrein.


   Þú  ert mér sem lífsins lind
   og leiðarstjarnan bjarta.
   Drýgði samt þá dauðasynd
   að  deyða einlægt hjarta.


   Enga veit ég yfirbót
   en ég sakna þín.
   Aumkur haf á  argan þrjót
   elsku Unnu rmín.


Mars 2000

   Friðþæing að vori

   Ástin er sólskin á  sumardegi
   sem innan fyllir mykvan reit.
   Ástin er geisli ljóss á  legi
   sem ljómar að  vori björt og heit.

   Tilfinnig magnast, treginn hverfur,
   túlkar hugur lífsins nið.
   Að  innan muni æstur sverfur,
   ákaft leitar að  sálarfrið.

   Finnur að  lokum farsæla höfn
   er fleyið siglir frá boðahlein.
   Á  hafinu knerri hennti um dröfn
   en hamingjan bíður er komið  er heim.


Júní 2000

   Hafnargil
   Milli fjallana múkkinn hann sveimar
   meðfram gilinu markar sér reit.
   Hér mætast í  heiðinni heimar
   hins liðna og þess sem á  veit.


   Uppfullt er gilið  af gjótum
   og geilum sorfnum í  klett.
   Hér erfitt e rforráðið  fótum
   að  finna í  urðarstétt.

   Gilið  er mótað  af blárri blíðu,
   blússandi elfsinsnið.
   Sem dreyra fjalls að  sjávarsíðu
   sindrandi ber með  ferskum klið.

Október 2001  Hamingjuþula

   Lífsins nauðsynjar garðinn minn skreyta
   Ég beit á  og veit nú  að  hverju leita.
   Augun á  skjánum,  hljóðin hlustina þreyta,
   Heltekinn,  ofseldur, krásanna verður að neyta.

   Holur að  innan held ég í  keiminn,
   Af háværum Mammons stemmum dreg seyminn,
   Allt það  sem áður gerði mig dreyminn
   Ærir nú  sálir um gervallan heiminn.

   Tærður og særður treð  ég í  mal,
   Tæki,  klæði,  ferðir,  flug
   Fáum nautnum vísa á  bug.
   Himnekst er mitt hal, vísast á  ég mikið  val,
   Ó,  guð  ég elska kapital.

   Ég sé  nú  eftir að  kortið  var klippt
   Og krónunnar samningum af bankanum rift
   Að  geði og lundu ég ekki fæ  lyft
   Með  lántökum,  neyslu og yfirborðsstift.

   Hamingjugaldurinn kvuð  vera sá
   Að  holuna fylla skal innan frá.
   Einbeita sinni að  einföldum dyggðum,
   Elska og sofa í fámennum byggðum.

   Keyptu fátt en hyggðu hátt
   Liggðu lágt sem lúðan.
   Hógværð  rækta í  auðmýkt,  sátt,
   Ei sækja skalt í  yfirdrátt
   Því  strengjalaus er brúðan.

   Trúðu á  tækifærin öll
   Trúðu á eigin dreyrahöll.
   Treystu á  aðra tvisvar á dag
   Treystu á  hamingju og þjóðarhag.
   Að  því  búnu ætla má
   Að  unaðsþankar fari á  stjá.
   Þá  stendur eftir staðreynd merk
   Þú  stendur eftir:    Kraftaverk.

Desember 2001

   Lúsiferskvæði

   Í  upphafi hjarta þitt opið  og tært
   Og augun svo leiftrandi fögur.
   Í  örmunum mjúku lá  ástmaður vært
   Og unaðs hlýddi á  sögur.

   Þá  skall á  ljóranum logamund
   Lúsifer var mættur.
   Hann vildi helga sér þennan fund
   Af hatri illa innrættur.

   Með  eldinn í  kroppnum og illskulegt glott
   Hann arkaði inní  flýti.
   Í  híbýlin hreinleg og andrúmsloft gott,
   Hér stemming ólík var víti.

   Þau felmtri slegin fundu það  eitt
   Að  fjandinn önd þeirra vildi.
   Á  öfugumhófunum (to be continued)


 Maí  2002

   Mynd af vatni

   Vatnið  breiðir vitund kalda,
   virkjar málm og magnar raf.
   Hvetur líf úr faldi fjalla
   færir straum um hauð  og haf.
   Í  borg og bæ  ljær vatnið  varma,
   veitir unað,  örvar bjarma,
   lýsir tár á  steinum hvarma.

Á Mokkakaffi 6. júlí 2002

 

   Myrkur í ljósi

   Tilfinningin tær sem lind
   tendrar glóð  í  hjarta.
   Hugi hvatur málar mynd
   Af mannúð  heimsins;  bjarta.


   Ef lifað  er með  ljósri brá
   og löngun góðra verka.
   Snúast syndir þrungnar þrá
   þvert í  dyggðir sterkar.


   Dauðinn hvata lífi ljær
   og leggur drög að tilvist.
   Í  ljósri dimmu lífið  grær
   í  myrkur dagsins þyrstir.

Apríl 2005

  Á  PólskriGrund

  Sólin hnígur,  svörður fangar
  sælan hennar varma streng.
  Eikin Pólsk og ölm á mæri
  standa á  strengsins langa færi
  er veikur röðuls lokaljómi
  logar bjart í  aftans tómi.
  Eina löngun ber í  brjósti,
  boginn skýst með kærleiks þjósti.
  Finnur lífí  mjóum meiði
  á  dökkri mörk á  Pólskri heiði.
  Ylinn berað  eikar hjarta
  angan vors nú  eigum bjarta.

Desember 2005

  Í  birtu guðdómsins bjarma þú  sérð
  sem í  brjósti þér kyrrlátur situr.
  Þar lýsandi engill ljóss er á  ferð
  sem lifandi kærleik þér flytur.

Mars 2006

  Er röðull bjartur reis úr djúpi
  rann um öldu knörrinn hratt.
  Lýstust ský  á  láðsins hjúpi
  er ljósið  haf við  himinn batt.

Apríl 2006

Kærleikur

  Hann rennandi kliðar sem lækur í  laut,
  leiftrandi bugar frá sérhverri þraut.
  Hans friður og stilla þér falla í skaut
  er finnurðu í vatninu tilvistarbraut.

  Kærleiks elfinn krjúptu við
  kenndu strenginn bjarta.
  Opnaðu eigin sálarhlið
  elskaðu af öllu hjarta.


September 2009

Laufin falla í litafjöld,
loftið fyllist angan.
Töfrar hausts nú taka völd,
tær blæs gráð um vangan.


Október 2009

Niðandi iðar nýbráðin klakinn,
Nútíðin felst í árinnar hljómann.
Ómandi, seiðandin, vorsins er vakinnn
andi vetrar setur í drómann.


Áramót 2013/14

Limra til Benedikts Erlingssonar í tilefni velgengni ”Hross í Oss” erlendis (í móanum).

Á þúfunni Íslandi nú fæstir sjá flóann
og fingurna liðka er þeir horfa í lófann.
En hann Benni er klár,
því allt þetta ár
hefur ’ann hrossunum riðið um móann.

Desember 2016

Þögn

Þögn er eina orðið sem gefur frá sér hljóð. Öll hin orðin í málinu eru hljóðlaus.
Ef ekki væri fyrir þögn væri alger þögn.