Almennt um stefnumótun og áætlanagerð

Með stefnu felst jafnan ásetningur um að breyta núverandi ástandi. Stefnur eru hugmyndafræðileg skjöl þar sem iðulega eru sett fram framtíðarsýn, gildi, áherslur, markmið og leiðir.  Sumum stefnum fylgja aðgerðaáætlanir en með þeim eru aðgerðir og verkefni útfærð til að ná markmiðum og áherslum í stefna. Skilgreint er hver ber ábyrgð á tiltekinni aðgerð, greint er frá fjármögnun aðgerðar og hvernig árangur verði mældur með mælikvörðum. Samkvæmt þessari sýn eru huglæg fyrirheit færð frá stefnu yfir í hlutlæga aðgerðaáætlun.

Önnur sýn á stefnur má segja að komi úr pólitískri orðræðu en hún felst í því að stefnur séu einungis framtíðarsýn eða fyrirheit, en slíkum stefnum fylgi ekki markviss aðgerðaáætlun og því óljóst hvernig umrædd sýn muni ná fram að ganga. Fyrri leiðina má nefna framkvæmdaleiðina en hina síðari fyrirheitaleiðina.

Stefnumótun og áætlanagerð er mjög viðamikill þáttur í allri starfsemi hins opinbera,hvort sem er í ráðuneytum, hjá stofnunum eða í sveitarfélögum. Stefnumótun og áætlanagerð einskorðast ekki við opinbera geirann heldur er þetta lykilþáttur í starfsemi einkageirans, t.a.m. er ekkert stöndugt fyrirtæki án framtíðarsýnar, markmiða, starfsmannastefnu o.s.frv. Í markaðsumhverfi er algengt að notað sé enska hugtakið „strategy“, en algengasta og e.t.v. víðasta skilgreining stefnu (e. policy) er:

 „skilgreining á tilgangi skipulagsheildar og þær áætlanir og leiðir sem eru farnar til að ná þeim tilgangi“.

Almennt má segja að opinber stefna sé það sem hún kemur til leiðar.

Ógrynni er til af fræðibókum sem fjalla ítarlega um þessi mál hvort sem það er innan opinbera geirans eða einkageirans. Stefnur og áætlanir eru ekki lengur einungis gerðar um stóra málaflokka eins og menntamál eða atvinnumál, heldur má sjá æ fleiri stefnur og áætlanir um tiltekin verkefni, eins og innkaupastefnu, útvistunarstefnu, mannréttindaáætlun, ferðamannaáætlun o.s.frv. Í raun hefur stefnu mótun og áætlanagerð að hluta til færst frá heildarmálaflokkum (macro) yfir í verkefnabundna (meso) málaflokka. Þrátt fyrir þessa fjölgun stefna og áætlana hefur lítið samræmi verið haft við gerð þeirra, s.s. varðandi uppsetningu, skipulag, samráð, eftir fylgni o.s.frv. Að hluta til hefur það gengið þar sem flestar þessara áætlana voru gerðar fyrir afmörkuð verkefni.

Árið 2010 var staða stefna og áætlana hjá hinu opinbera greind með það að leiðarljósi að einfalda, fækka og samþætta stefnur og áætlanir sem ráðuneyti og stofnanir höfðu sett fram á síðastliðnum árum. Einn þáttur þeirrar vinnu fólst í því að greina helstu stefnur og áætlanir og vinna heildstæðar tillögur að breyttu skipulagi við stefnumótun og áætlanagerð innan stjórnsýslunnar. Við þá greiningu var búið til og stuðst við sérstakt greiningarskapalón.

Forsenda þess að stefnur og áætlanir nái fram að ganga er sú að verkefni þeirra og aðgerðir séu fjármagnaðar og innleiddar. Því þarf að spyrja þeirrar spurningar hvort stefnur og áætlanir séu sérstaklega fjármagnaðar. Stefnur og áætlanir eru leiðarvísir og verkfæri að breyttu ástandi og þurfa því að innihalda markmið og mælikvarða til að meta hvort árangur náist.

Nauðsynlegt er að skoða hvort stefnur og áætlanir innihaldi skilgreind hlutlæg markmið og mælikvarða og hvort þau séu metin með reglubundnum hætti. Markmið munu ekki nást nema að rétt sé að framkvæmdinni staðið. Lykilatriði er því að skilgreina framkvæmda- og ábyrgðaraðila. Eru að jafnaði skilgreindir framkvæmda- og ábyrgðaraðilar fyrir verkefnum og aðgerðum í stefnum og áætlunum? Oft næst árangur ekki nema með samvinnu og samhæfingu ólíkra aðila. Þess vegna þarf að huga að því að stefna vinni ekki gegn annarri stefnu. Er t.a.m. hugað að því hvaða aðrar stefnur og áætlanir kunni að styðja við eða vinna gegn þeirri stefnu sem verið er að útfæra?

stefnu mörkun-mótun - yfirlitsmynd.JPG
 

Dagana 5. – 6. nóvember 2013 stóð Austurbrú fyrir atvinnumálaráðstefnu undir yfirskriftinni „Auðlindin Austurland“ á Hóteli Hallormsstað. Boðið var upp á fjölda fyrirlestra, málstofa og tengslatorg. Samgöngumál til framtíðar, ósnert víðerni, umskipunarhöfn í Finnafirði, hæglæti sem lífsmáti, þjónusta við olíuleit, álhönnun, listalýðháskóli, hátækni í fiskiðnaði, sjálfbærni, staðbundin menning, háskólarannsóknir... Þessi umfjöllunarefni og mörg fleiri voru í brenndepli á ráðstefnunni þar sem horft var til framtíðar og farið yfir þau gríðarlegu tækifæri sem fjórðungurinn hefur upp á að bjóða. Atvinnuráðstefnan er hluti af sóknaráætlun Austurlands og á ábyrgð Sambands sveitarfélaga á Austurlandi. Austurför sá um skipulagningu ráðstefnunnar.

Greinar um stefnumótun